Landsréttur hafnaði fyrir helgi kröfu Isavia þar sem þess var krafist að úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í deilunni við ALC yrði felldur úr gildi. Héraðsdómur úrskurðaði um miðjan júlí að Isavia skyldi afhenda ALC Airbusþotu sem hafði verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli.
Frá þessu er greint á vef RÚV í kvöld.
Héraðsdómur úrskurðaði 17. júlí að ALC þyrfti aðeins að greiða þá upphæð sem væri tengd vélinni en ekki allar skuldir annarra flugvéla á vegum WOW air við Isavia. ALC var talið hafa sýnt fram á greiðslu allra skulda sem tengdar voru vélinni og því voru félaginu veitt umráð yfir vélinni.
Vélinni var flogið af landi brott tveimur dögum síðar, eða 19. júlí.
Að mati Landsréttar hefur Isavia ekki lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu héraðsdóms hnekkt vegna þess að ALC hefur fengið farþegaþotuna sína. Þeim hluta var vísað frá dómi.
Dómstólnum þótti heldur ekki ástæða til að fjalla um þá niðurstöðu héraðsdóms að málskot fresti ekki réttaráhrifum úrskurðarins og var því einnig vísað frá dómi.
Ekki er ljóst hver næstu skref eru en ALC mun að öllum líkindum höfða skaðabótamál á hendur Isavia.