„Ef ekkert verður að gert sjáum við fram á verulega skerta þjónustu og lakari þjónustu en fólk hefur vanist hingað til,“ sagði Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, um stöðuna á innanlandsflugi í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun.
Spurður hvernig þessi skerta þjónusta muni birtast sagði Árni: „Við höfum bara séð það hjá okkur og öðrum sem eru í innanlandsflugi að það verða færri ferðir í boði í vetur en var síðastliðinn vetur.“
Samdrátturinn í vetur verður um 10%. „Ef við horfum á fjölda ferða á Egilsstaði og Ísafjörð þá fækkar þeim um 10% á viku. Á Ísafirði förum við úr 14 í 12 og á Egilsstöðum úr 20 í 18,“ sagði Árni.
Hann benti á að hagvöxtur á landsbyggðinni og nýtni innanlandsflugs héldust í hendur. „Fjöldi farþega í innanlandsflugi hefur í gegnum tíðina endurspeglað ástandið á landsbyggðinni og hagvöxt bundinn eftir landsvæðum,“ sagði Árni og bætti því við að hagvöxtur á Austurlandi hefði verið neikvæður undanfarin þrjú til fjögur ár.
„Ef við náum hagsveiflunni aftur upp á við, sérstaklega á landsbyggðinni, þá hef ég trú á því að við náum okkur aftur á strik,“ sagði Árni.