1,3 milljarðar í viðbótarkostnað hjá Sorpu

Frá byggingu gas-og jarðgerðarstöðvarinnar í Álfsnesi. Ný fjárfestingaáætlun Sorpu gerir …
Frá byggingu gas-og jarðgerðarstöðvarinnar í Álfsnesi. Ný fjárfestingaáætlun Sorpu gerir ráð fyrir að kostnaður við stöðina aukist um 637 m.kr. frá þvi sem áætlað var í fjárfestingaáætlun 2019-2023. Ljósmynd/Sorpa

Vegna viðbótarkostnaðar við gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi og kostnaðar vegna tækjabúnaðar í stækkaða móttökustöð í Gufunesi hafa breytingar verið gerðar á fjárfestingaráætlun Sorpu til næstu fjögurra ára. Þetta var ákveðið á stjórnarfundi fyrirtækisins í morgun. 

„Það er ljóst að þau mistök sem urðu við gerð síðustu fjárfestingaáætlunar eru óheppileg. Þau kalla á breytt vinnulag hjá okkur svo koma megi í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig,“ er haft eftir Birni H. Halldórssyni, framkvæmdastjóra Sorpu, í tilkynningu. Ákvörðunin fer nú í kynningar- og samþykktarferli á vettvangi eigenda Sorpu sem eru borgar- og bæjarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu.  

Aukni framkvæmdakostnaðurinn snýr annars vegar að 17,7% viðbótarkostnaði við gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi sem ráðgert er að taka í notkun á næsta ári. Ný áætlun gerir ráð fyrir að kostnaður við stöðina aukist um 637 m.kr. frá því sem áætlað var í fjárfestingaáætlun 2019-2023, eða úr 3.610 m.kr. í 4.247 m.kr. 

Stærstur hluti viðbótarkostnaðar við gas- og jarðgerðarstöðina er vegna aukinnar jarðvinnu og meira magns byggingarefna en ráð var fyrir gert, sem meðal annars má rekja til þess að færa þurfti stöðina til á lóðinni í Álfsnesi og skipta út ófullnægjandi byggingarefni undir botnplötu. Þá eru verðbætur upp á 186 m.kr. hluti af þessum viðbótarkostnaði sem ekki var gert ráð fyrir í fyrri áætlun.

Hins vegar er 719 m.kr. kostnaður vegna tækjabúnaðar í stækkaða móttökustöð SORPU í Gufunesi. Gert var ráð fyrir þessum kostnaði í áætlun SORPU fyrir árið 2018 en láðist að færa hann inn í fjárfestingaáætlun ársins 2019. Á móti kemur að byggingarkostnaður vegna stækkunar stöðvarinnar, sem gert var ráð fyrir að yrði 605 milljónir króna, verður lægri eða á bilinu 361 til 418 milljónir króna.

Samtals nemur viðbótarkostnaður frá samþykktri fjárfestingaáætlun vegna gas- og jarðgerðarstöðvar og vegna kostnaðar við tækjabúnað í móttökustöð 1.356 m.kr. „Sem fyrr segir var gert ráð fyrir stærstum hluta þessarar upphæðar í fjárfestingaáætlun 2018 en það var ekki fært til bókar í fjárfestingaáætlun 2019-2023,“ segir í tilkynningu. 

Frá stækkun móttökustöðvar SORPU í Gufunesi. Viðbótarkostnaður verkefnisins nemur 719 …
Frá stækkun móttökustöðvar SORPU í Gufunesi. Viðbótarkostnaður verkefnisins nemur 719 milljónum króna. Ljósmynd/Sorpa

Ný lán upp á tæpan milljarð til 15 ára

Málið hefur verið til umræðu á eigenda- og stjórnarfundum SORPU bs. í júlí og ágúst. Þar hefur framkvæmdastjóri SORPU bs. kynnt tillögur um aðgerðir til að mæta þessari breyttu stöðu. Tillögur hans gera ráð fyrir að semja við lánastofnanir um skuldbreytingu og lengingu lána og að tekin verði ný lán upp á 990 milljónir króna til 15 ára. Einnig að frestað verði kaupum á hluta tækjabúnaðar í móttökustöðina í Gufunesi og að nokkrum öðrum óskyldum fjárfestingum verði frestað.  

Á stjórnarfundi SORPU í morgun var bókað að fara þurfi yfir verkferla félagsins og var formanni og varaformanni stjórnar falið að fá óháðan aðila til að gera úttekt á starfsemi félagsins og leggja tillögur þar að lútandi fyrir næsta fund stjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK