Tesla setur upp „ofurhleðslustöðvar“ á þremur stöðum á Íslandi

Tesla Model 3 á bílasýningu.
Tesla Model 3 á bílasýningu. AFP

Rafbílaframleiðandinn Tesla hyggst setja upp svokallaðar ofurhleðslustöðvar (e. Superchargers) á þremur stöðum á Íslandi; Egilsstöðum, Klaustri og Stað. Þetta kemur fram á vefsíðu fyrirtækisins.

Á vefsíðunni er ekki tilgreint nánar hvenær ofurhleðslustöðvarnar verða settar upp heldur einungis sagt, innan sviga, að þær verði settar upp fljótlega.

Í skriflegu svari Evens Sandvolds Rolands, samskiptastjóra Tesla í Noregi, segir að ekki sé hægt að skýra nánar frá verkefninu á þessari stundu en frekari upplýsingar verði gefnar út síðar.

Spurður hvers vegna þessar staðsetningar hafi orðið fyrir valinu segir Roland að Tesla setji vanalega upp ofurhleðslustöðvar á þeim stöðum sem viðskiptavinir þeirra vilji heimsækja með það að markmiði að tengja vinsæla ferðamannastaði.

Ofurhleðslustöðvar eru hugsaðar fyrir lengri ferðalög en fyrir innanbæjarakstur er best að nota hefðbundnar hleðslustöðvar annaðhvort á heimilum eða vinnustöðum.

„Bílarnir okkar geta keyrt allt að 610 km samkvæmt WLTP-staðlinum, sem er meira en nóg fyrir hefðbundinn innanbæjarakstur. Svo þegar við setjum upp ofurhleðslustöðvar á Íslandi viljum við jafnt og þétt koma á fót kerfi ofurhleðslustöðva á lykilstöðum sem mun gera viðskiptavinum okkar kleift að ferðast auðveldlega milli vinsælustu og mikilvægustu áfangastaða,“ skrifar Roland.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK