Icelandair hefur á þessu ári lagt meiri áherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands og á móti dregið úr vægi skiptifarþega. Það endurspeglast í flutningatölum sem félagið birti í Kauphöll í dag því Icelandair hefur aldrei flutt fleiri farþega til og frá Íslandi en á þessu ári.
Á öðrum ársfjórðungi fjölgaði farþegum félagsins til Íslands um 39% á milli ára og í júlí og ágúst um rúm 30%. Yfir háannatímann, í júní, júlí og ágúst, flutti félagið yfir 720 þúsund farþega til Íslands, að því er félagið greinir frá í tilkynningu.
Flugfélagið segir að áfram verði haldið á sömu braut í vetur.
„Þótt félaginu séu skorður settar vegna aðstæðna í flotamálum getur það brugðist við með þeim hætti að færa til tíðni á milli áfangastaða og nýta flugflotann á leiðum þar sem eftirspurn eftir ferðum til Íslands er áætluð mikil.
Í takt við þessar áherslur hefur félagið aukið sætaframboð í vetur til og frá Evrópu, t.d. á áfangastaði á borð við Kaupmannahöfn, Dublin, Brussel og Berlín. Þótt heildarsætaframboð til N-Ameríku dragist lítillega saman samkvæmt vetraráætlun félagsins verður aukning í framboðnum sætum til ákveðinna áfangastaða í Norður-Ameríku, svo sem Minneapolis, Vancouver, Denver og Orlando. Fjárfestingar og áherslur í sölu- og markaðsstarfi næstu vikur og mánuði verða í takt við þessa þróun leiðarkerfisins,“ segir í tilkynningunni.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir ennfremur, að íslensk ferðaþjónusta hafi notið góðs af auknum farþegafjölda Icelandair í sumar en sá sveigjanleiki sem félagið hafi í leiðakerfinu geri því kleift að bregðast við breyttum aðstæðum á markaði með jafn skjótum hætti og raun beri vitni.
„Þessar áherslubreytingar hafa verið til hagsbóta fyrir íslenska ferðaþjónustu, þar á meðal okkar hótelfélag þar sem herbergjanýting hefur aukist á milli ára. Við höfum lagt okkur fram við að takast á við áskoranir liðinna mánaða með skilvirkum hætti og hefur starfsfólk okkar staðið sig frábærlega við krefjandi aðstæður. Það er ljóst að íslensk ferðaþjónusta getur horft björtum augum til framtíðar svo lengi sem við höfum það að leiðarljósi að horfa til gæða fremur en magns.“