„Samkeppni er af hinu góða“

Michelle Roosevelt Edwards, stjórnarformaður USAerospace Associates LCC og tilvonandi stjórnarformaður …
Michelle Roosevelt Edwards, stjórnarformaður USAerospace Associates LCC og tilvonandi stjórnarformaður WOW AIR LCC. mbl.is/Árni Sæberg

„WOW er magnað vörumerki og flugfélag sem var stofnað af snilli af stofnendum félagsins. Við erum staðráðin í því að byggja á þeim grunni til að flugfarþegar geti á ný notið þeirrar upplifunar sem WOW skapaði fyrir farþega,“ sagði Michelle Roosevelt Edwards, stjórnarformaður USAerospace og tilvonandi stjórnarformaður WOW AIR LCC, á blaðamannafundi í Reykjavík í dag þar sem tilkynnt var um endurkomu flugfélagsins WOW air með nýjan eigendahóp.

„Í þessu felst einnig tækifæri til þess að byggja upp sterka viðskiptabrú, einkum hvað varðar ferðaþjónustu, milli landanna. Ég hef fallið fyrir Íslendingum og menningin hér er frábær. Þið eruð sjálfstæð þjóð og frjó. Þið færið alþjóðasamfélaginu vörur og þjónustu sem eru í fyrsta flokki,“ sagði hún, en flugfélagið hefur starfsemi í október með fyrsta flugi sínu.

„Við hlökkum til fyrsta flugsins í október frá Washington til Keflavíkur,“ sagði hún og minntist einnig á að fraktflutningahluti flugfélagsins yrði stór og öflugur. „Framkvæmdastjórnin að baki mér er hokin af reynslu.“

„Ég vil bæta úr matvælum í flugvélunum. Flugferðir eru áskorun fyrir okkur farþegana vegna öryggiskrafna o.fl. Við viljum bæta upplifun farþega af þessu, m.a. með því að bjóða upp á betri mat og drykk,“ sagði hún, en samstarf við íslenska framleiðendur vatns er í burðarliðnum að hennar sögn. Þá verður reynt að bæta upplifun farþega með hjálp tækninnar sem kostur er. Líkt og komið hafði fram óskar Roosevelt Edwards þess að hægt verði að koma upp sérstökum setustofum á flugvöllum fyrir farþega flugfélagsins.

„Fluggeirinn er erfiður bransi“

Edwards gaf ekki upp við fjölmiðlamenn hvaða upphæð var látin af hendi fyrir eignir þrotabúsins. Hún sagði að 85 milljónir bandaríkjadala hefðu verið lagðar í verkefnið og benti á að það þyrfti ekki hærri upphæðir til þess að endurreisa flugfélagið, það væri enda ekki verið að stofna flugfélag frá grunni. „Vörumerkið gerir okkur kleift að byggja á því sem stofnendurnir bjuggu til og fólk vildi vera hluti af,“ sagði hún. „Fjárhagsstaða okkar er góð, þetta er allt hrein eign og við skuldum ekkert,“ sagði Roosevelt Edwards sem var einnig spurð hvort vörumerkið WOW air væri „skemmd vara“ í hennar huga.

„Það finnst mér ekki. Fjöldi magnaðra fyrirtækja í öllum geirum hefur mætt fjárhagslegum áföllum. Fluggeirinn er erfiður bransi, en eftirspurnin er fyrir hendi. Þið þurfið annað flugfélag hér á landi sem býður ódýr fargjöld. Samkeppni er af hinu góða,“ sagði hún. „Áskorunin er að horfa á það sem var gott hjá WOW air.

Vörumerkið er alls ekki skemmt. Ég held að fólk sakni þess að fara á Keflavíkurflugvöll til þess að stíga upp í fjólubláa flugvél og fljúga eitthvað,“ sagði hún. „60% farþega WOW air komu frá Bandaríkjunum og ég er ein þeirra sem sakna þess að fljúga með WOW air.“

Með bandarísku flugrekstrarleyfi

WOW AIR LCC mun starfa samkvæmt bandarísku flugrekstrarleyfi til að byrja með að sögn Edwards. Spurð hvert hlutverk Íslands og Íslendinga í verkefninu verður svarar hún: „Fimmtíu prósent.“ „Ég sé þetta fyrir mér sem brú milli Washington og Reykjavíkur [...]. Það er mikilvægt að þið áttið ykkur á því sem þið hafið hér. Hér er ótrúleg menning og þið eruð auðvitað hluti af henni alla daga, en þið eruð sérstök,“ sagði hún.

„Fyrir okkur að geta komið hingað með Bandaríkjamenn og geta flogið með íslenska sérfræðinga til Bandaríkjanna er okkur mikilvægt,“ sagði hún, en aðrir hlutar leiðarkerfisins eru enn í smíðum. „Ég flýg ekki flugvélum, ég tek mér far með þeim,“ sagði Roosevelt Edwards. „Sérfræðingarnir skoða leiðarkerfið. Við viljum komast að því hvert fólk vill fljúga,“ sagði hún. „Það er það sem skiptir öllu máli,“ sagði hún.

Flugfélagið hefur störf með tvær flugvélar en síðar meir stendur til að fjölga þeim. Þó vill Roosevelt Edwards stíga varlega til jarðar. „Fyrir sumarið viljum við hafa fjórar flugvélar og fjölga þeim í tíu til tólf og stoppa þar,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka