Vettvangseftirlit Ríkisskattstjóra tók til skoðunar 1.040 fyrirtæki á tímabilinu maí, júní og júlí í sumar. Alls fengu 80 fyrirtæki skrifleg tilmæli um úrbætur í kjölfar heimsóknar frá eftirlitinu. Rekstur var stöðvaður hjá tveimur fyrirtækjum.
Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á eftirlit með ferðaþjónustu, einkum á sumrin. Af 1.040 fyrirtækjum á tímabilinu maí-júlí voru 399 innan ferðaþjónustunnar. Þar af var 141 skoðað í framhaldi af umferðareftirliti á vinsælum ferðamannastöðum. Af 399 málum innan ferðaþjónustunnar var u.þ.b. 50% lokið án athugasemda. Langflestar athugasemdirnar vörðuðu reiknað endurgjald eiganda og tengdra aðila.