Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur skrifað undir nýjan samning við kínversk flugmálayfirvöld (e. AVIC – Aviation Industry Corporation of China) um samstarf við þróun og smíði farþegavéla með einum gangi (e. Single Aisle Aircraft). Skrifað var undir samninginn í Alþýðuhöllinni (e. Great Hall of the People ) í Beijing, að viðstöddum Li Kequiang, forsætisráðherra Kína, og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.
Í tilkynningu frá Airbus segir að samkomulagið dýpki og treysti sambandið á milli Airbus og kínverskra flugmálayfirvalda.
Samstarfið miðar að því að efla öll aðföng er snúa að smíði skrokks A319 og A320 flugvéla Airbus, í Tianjan í Kína. Miðað er við að afhenda fyrstu flugvélaskrokkana af þessari tegund, sem verða að öllu leyti smíðaðir í Kína, í öðrum ársfjórðungi 2021.
Samningurinn er eins og segir í tilkynningunni mikilvægur áfangi í samstarfi Airbus og Kína með gagnkvæman hag að leiðarljósi, en talið er, eins og segir í tilkynningunni, að flugiðnaðurinn muni almennt njóta góðs af samstarfinu.
Samstarf Airbus og Kína á sviði farþegaflugvéla nær aftur allt til ársins 1985, þegar skrifað var undir fyrsta samninginn við flugvélaframleiðandann Xi'an Aircraft Company, sem nú heitir AVIC Aircraft Co. Ltd. Sá samningur sneri að framleiðslu og samsetningu á hurðum fyrir A300- og A310-breiðþotur.
Verðmæti samstarfssamnings Airbus og Kína var metinn á 900 milljónir bandaríkjadala árið 2018 samkvæmt tilkynningunni, eða um 113 milljarða íslenskra króna.