Meiri sala á miðborgaríbúðum

Hægt er að smella á myndina til að sjá hana …
Hægt er að smella á myndina til að sjá hana stærri. mbl.is

Síðustu vikur hafa verktakar selt nýjar íbúðir í miðborginni fyrir milljarða króna. Frá talningu Morgunblaðsins í lok júní hafa þannig selst 49 íbúðir og gætu 72 íbúðir bæst við á Brynjureit ef samningar takast.

Alls yrðu það 120 íbúðir en miðað við að meðalverð sé 50 milljónir yrði söluverðið alls 6.000 milljónir.

Fjárfestar eiga þannig í viðræðum við verktakafyrirtækið Þingvang um kaup á 72 íbúðum á Brynjureit í miðborginni. Ásett verð á íbúðirnar er á fjórða milljarð króna. Brynjureitur er við Hverfisgötu og á baklóðum. Ný göngugata hefur verið gerð á Brynjureit frá Laugavegi og undir nýtt fjölbýlishús við Hverfisgötu.

Pálmar Harðarson, framkvæmdastjóri Þingvangs, segir félagið eiga í viðræðum við fjárfesta um kaup á öllum íbúðunum 72. Fleiri hafi sýnt því áhuga að kaupa allar íbúðirnar. Hann geti að öðru leyti ekki tjáð sig um málið á þessu stigi.

Íbúðir á Brynjureit komu í sölu í tveimur lotum. Í þeim fyrri eru 49 íbúðir sem snúa að Hverfisgötu en í þeim síðari 23 íbúðir á baklóð. Framkvæmdirnar eru á lokastigi.

Ganga myndi á framboðið

Framboð nýrra íbúða í miðborginni í ár er sennilega án fordæma. Með kaupunum á Brynjureit myndi ganga verulega á framboð nýrra íbúða. Salan var hæg í byrjun sumars, en óvissa í kjölfar gjaldþrots flugfélagsins WOW air og órói vegna kjarasamninga voru nefnd sem skýringar. Líf hefur hins vegar færst í sölu miðborgaríbúða síðustu vikur.

Pálmar segist aðspurður hafa þá kenningu að óvenjugott tíðarfar í sumar eigi þátt í rólegri sölu. Nú sé markaðurinn að fara í gang á ný.

„Kaupgetan hefur verið til staðar. Það hefur hins vegar verið óvissa í efnahagslífinu. Fólk hefur verið að bíða og sjá hvernig framhaldið yrði. Annað sem vekur athygli er að fyrstu kaupendur hjá okkur í miðborginni reikna með tekjum af útleigu til ferðamanna í 90 daga á ári. Þeir ætla svo að borga afraksturinn inn á lánið. Þetta er aðeins hægt að gera í miðbænum,“ segir Pálmar.

Kaupa íbúðir á Frakkastígsreit

Þá hafa fjárfestar keypt 15 íbúðir á Frakkastígsreit. Félagið Blómaþing fer með uppbygginguna.

Þorsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir kaupendur ætla að nota íbúðirnar fyrir starfsmenn sína.

Íbúðirnar á Frakkastígsreit hafa komið í sölu í nokkrum áföngum. Sá fyrsti kom í sölu í nóvember 2017.

Með kaupunum eru nú aðeins tvær íbúðir óseldar af 18 á hæðum fimm og sex á reitnum og ein íbúð á 2. hæð. Hins vegar eru fimm íbúðir óseldar á fjórðu hæð og sjö íbúðir á þriðju hæð. Samanlagt eru 15 íbúðir óseldar af 68 á reitnum.

Þá vekur athygli að allar íbúðirnar 11 á Klapparstíg 30 eru seldar. Þær eru í sömu nýbyggingu og Skelfiskmarkaðurinn, sem var lokað eins og kunnugt er. Annar veitingastaður er þar í undirbúningi. Hins vegar eru þrjár íbúðir af fjórum óseldar á Klapparstíg 28, sem einnig var byggður af félaginu Þingvangi. Íbúðirnar þar eru töluvert stærri og dýrari en á Klapparstíg 30, sem bendir til að verð hafi áhrif á eftirspurn.

Þá eru 15 íbúðir óseldar á Höfðatorgi sem kosta undir 60 milljónum. Þar eru 94 íbúðir í tveimur húsum og eru nú tíu íbúðir óseldar sem kosta yfir 90 milljónir króna, sú dýrasta 195 milljónir króna. Níu íbúðir seldust á Hafnartorgi í sumar og styttist í að önnur hver íbúð þar sé seld.

Þá hafa 10 íbúðir selst á tveimur reitum ofarlega á Hverfisgötu.

Verðið muni hækka á nýju ári

Félagið Rauðsvík setti 70 íbúðir á Hverfisgötu 85-93 í sölu í apríl og eru 17 seldar. Þá er félagið að byggja 24 íbúðir á Hverfisgötu 92 og fimm íbúðir á Hverfisgötu 88-90 sem fara í sölu á næstu mánuðum, alls 99 íbúðir.

Sturla Geirsson, framkvæmdastjóri Rauðsvíkur, segir mikið framboð á skömmum tíma hafa haldið niðri verði nýrra íbúða í miðborginni. Það muni ekki vara mikið lengur. „Verðið hefur ekki hækkað í hlutfalli við kostnað. Krónan hefur veikst og allur byggingarkostnaður hækkað. Verðið mun því hækka um leið og framboðið minnkar. Það liggur í hlutarins eðli. Nú er boðið upp á nýjar íbúðir á svipuðu verði og í Garðabæ og á Hlíðarenda. Það mun ekki endast. Ég vænti þess að um áramótin verði búið að ganga verulega á framboðið. Þá mun þessari kyrrstöðu í verðlagningu ljúka,“ segir Sturla. Rætt sé um að kaupendur bíði eftir útspili ríkisstjórnarinnar í haust varðandi fyrstu kaup.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. september.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK