Fimmtán manns vinna nú af kappi við gerð leiksins The Darken, sem þróaður er af íslenska tölvuleikjafyrirtækinu Myrkur Games sem tryggði sér nýverið 50 milljóna króna fjárfestingu frá að mestu íslenskum fjárfestum, en áður hafði fyrirtækið hlotið 25 milljóna styrk frá Tækniþróunarsjóði og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Fram undan er önnur og talsvert stærri fjármögnunarumferð við erlenda aðila sem á að klárast fyrir lok þessa árs. Þeir Halldór Snær Kristjánsson framkvæmdastjóri, Daníel Arnar Sigurðsson og Friðrik Aðalstein Friðriksson, sem stofnuðu Myrkur Games árið 2016, hafa í nógu að snúast þessa dagana og voru fyrir skemmstu að kynna leikinn á Gamescom-ráðstefnunni í Köln í Þýskalandi sem 400 þúsund manns sóttu.
Þeir hófu þróun á leiknum fyrir um einu og hálfu ári og að sögn Halldórs er stefnan sett á að tvöfalda starfsmannafjöldann á næstunni. Hann vill aftur á móti stíga varlega til jarðar þegar kemur að útgáfutíma leiksins, en vinnudagsetningin í dag miðar að því að leikurinn verði klár eftir um tvö ár. The Darken er sögudrifinn ævintýraleikur sem fjallar um söguhetjuna Ryn. Tveir handritshöfundar starfa hjá Myrkur Games og vinna að því að skapa ævintýraheiminn sem Ryn býr í frá grunni, „allt niður í eðlisfræðina og tungumálið,“ eins og Halldór orðaði það í samtali við Morgunblaðið.
Ryn er raunar leikin af leikkonunni Aldísi Amah Hamilton, en í húsnæði Myrkurs er búið að setja upp 100 fermetra upptökuver þar sem allar senur í leiknum eru teknar upp. Aldís Amah verður ásamt öðrum leikurum auðþekkjanleg í leiknum en klædd í tölvugerðan ævintýrabúning. Margir kannast eflaust við aðferðafræðina úr kvikmyndunum um Hringadrottinssögu þar sem persónan Gollrir var gerð raunveruleg með þessum hætti.
„Við setjum leikarana í hreyfigreinanlega (e. motion capture) galla þar sem við tökum upp allar líkamshreyfingar þeirra, andlitshreyfingar, öll hljóð í leiknum, skylmingaatriði og svo framvegis,“ segir Halldór í samtali við Morgunblaðið. „Við höfum einnig sett upp fullt af myndavélum í hring þar sem við ljósmyndaskönnum alla leikarana til þess að búa til tölvugerða tvífara. Manneskjan í leiknum lítur sem sagt alveg eins út og leikarinn,“ segir Halldór.
Halldór segir að um spennandi verkefni sé að ræða. Það sé óhefðbundið að því leytinu til að kostnaðurinn við gerð leiksins sé töluvert minni en hefur tíðkast í tölvuleikjabransanum. „Helsta málið með svona leiki hingað til hefur verið að þeir eru mjög umfangsmiklir í þróun með nokkur hundruð starfsmenn á bak við venjulega leiki. Sem gerir þá rosalega dýra í framleiðslu, sem aftur setur mikla áhættu í verkefni því þá þarf að selja afar mikið, kannski um milljón eintök, til þess að skila sléttu,“ segir Halldór og nefnir að útgáfa Tomb Raider-leiksins fyrir nokkrum árum, sem seldist í þremur milljónum eintaka, hafi ekki verið talin vel heppnuð.
„Við þurfum ekki að selja nema 200-300 þúsund eintök og þá erum við komin á núllið bara af því að tæknin sem við erum að nota og við höfum þróað sjálf er í rauninni að gera okkur kleift að vinna að gerð leiksins með miklu minna teymi en hefðbundið er. Á næstu árum tel ég að við munum sjá mikla breytingu hvað þetta varðar þar sem við fáum að sjá marga nýja og spennandi leiki. Í stað þess að vera að gera leik númer sjö í seríu kemur frekar eitthvað nýtt og spennandi sem nær til fleiri markhópa þar sem ekki þarf jafn mikla sölu til þess að gera leiki vel heppnaða, bæði fyrir fjárfesta og fyrirtæki,“ segir Halldór.