PCC gæti þurft fimm milljarða

Kísilverksmiðjan á Bakka.
Kísilverksmiðjan á Bakka. mbl.is/Hari

Hluthafar kísilverksmiðjunnar á Bakka, þýska fyrirtækið PCC og íslenskir lífeyrissjóðir, leita nú leiða til að fjármagna um fimm milljarða króna innspýtingu, sem félagið er talið þurfa til að tryggja rekstrargrundvöll. Frá þessu er greint í Markaðinum á Fréttablaðinu, en samkvæmt heimildum miðilsins er áformað að stærstur hluti þess komi frá þýska fyrirtækinu eða með hlutafjáraukningu.

Kísilverið á Bakka var gangsett í fyrravor, en vandræðagangur hefur einkennt starfsemina æ síðan, tafir á uppsetningu og lækkun á heimsmarkaðsverði kísils. Slökkva þurfti á ljósbogaofnum vegna bilunar í hreinsivirki verksmiðjunnar, en vonir standa til að hægt verði að koma þeim af stað innan tíðar og að verksmiðjan verði þá komin á fullt fyrir árslok.

Boðað hefur verið til hluthafafundar Bakkastakka, eignarhaldsfélags kísilverksmiðjunnar, 17. september þar sem til stendur að gera hluthöfum grein fyrir stöðunni.

Lífeyrissjóðirnir Gildi, Stapi og Birta fara, ásamt Íslandsbanka, með 13,5% hlut í kísilverinu auk þess að hafa lagt til fé gegn breytanlegu skuldabréfi að andvirði 62 milljónir dala, 7,8 milljarðar króna. Nemur heildarfjárfesting innlendu aðilanna því um 10 milljörðum króna, og greinir Markaðurinn frá því að rætt hafi verið við lífeyrissjóðina um það hvort þeim hugnist að leggja enn meira fé í reksturinn. Þá hafi einnig verið rætt um að semja um seinkun vaxtagreiðslna á fyrrnefndum skuldabréfum til lífeyrissjóðanna, en bókfært virði þeirra er nú 9,5 milljarðar króna og bera þau 8,5 prósenta vexti svo ætla má að vaxtagreiðslur nemi um 800 milljónum króna árlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK