Markmiðið með því að endurreisa WOW air er að aftur verði skemmtilegt að fljúga að sögn Michele Roosevelt Edwards (áður Ballarin), stjórnarformanns USAerospace Associates, en félagið stendur að baki fyrirhugaðri endurreisn flugfélagsins. Stefnt sé að því að bjóða farþegum upp á almennt farrými þar sem gert verði vel við þá.
Fram kemur í umfjöllun vefjarins AFAR að boðið verði þannig upp á matseðla sem settir yrðu saman af kokkinum Roger Wiles. Þar verði meðal annars lögð áhersla á hollustu og unnum matvörum haldið í lágmarki. Einnig er fyrirhugað samstarf við austurrísku kaffihúsakeðjuna Julius Meinl varðandi kaffi og te um borð sem og ítalska ísframleiðandann Sano Gelato. Þá verður boðið upp á íslenskar vörur til sölu um borð eins og Omnom-súkkulaði og lífrænar snyrtivörur frá Soley.
Sömuleiðis segir í umfjölluninni að endurreist WOW air ætli að koma sér upp sérstöku farþegarými fyrir alla farþega flugfélagsins, bæði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og á Dulles-flugvelli í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Enn fremur sé hugmyndin að notast við tækni sem ber kennsl á andlit fólks þegar farið er um borð í flugvélar félagsins sem og til þess að koma skilaboðum til farþega um að þeir geti farið um borð. Þá verður farangur merktur þannig að farþegar geti haft uppi á honum í gegnum app.
Enn fremur segir í umfjöllun AFAR að hönnuðurinn Gunnar Hilmarsson hafi verið ráðinn til þess að sjá um einkennisfatnað áhafna fyrir endurreist flugfélag. Þeirri spurningu hvort aftur yrði boðið upp á flug til Íslands frá Bandaríkjunum fyrir 99 dollara, eins og forverinn bauð upp á, var svarað á þá leið að lögð yrði áhersla á að halda fargjöldum lágum og að handfarangur yrði innifalinn í flugfargjaldinu.