Áfengi dýrast á Íslandi vegna skatta

Félag atvinnurekenda gagnrýnir áform um hækkun áfengisgjalds og boðaða hækkun …
Félag atvinnurekenda gagnrýnir áform um hækkun áfengisgjalds og boðaða hækkun álagningar ÁTVR. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Áfengisverð á Íslandi er 168% hærra en meðaltalið í Evrópusambandinu, eða hátt í þrefalt meðalverð og er hvergi hærra í álfunni. Þetta kemur fram í umfjöllun Félags atvinnurekenda þar sem vísað er í samanburð Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, á áfengisverði í Evrópu. Þar segir að eina landið sem komist nálægt Íslandi hvað áfengisverð varðar sé Noregur. Þar sé verðið 152% hærra en meðalverðið í ESB. Bent er á að óáfengir drykkir á Íslandi séu 34% dýrari en að meðaltali í ESB.

Félag atvinnurekenda skýrir verðmuninn með „gífurlegum sköttum íslenska ríkisins“ á áfenga drykki. „Samkvæmt samanburði Spirits Europe, samtaka evrópskra áfengisframleiðenda, frá því í byrjun þessa árs, eru langhæstu áfengisskattar í Evrópu á Íslandi, eins og myndin sýnir. Í þessum samanburði er notuð einingin evrur á hektólítra hreins vínanda. Áfengisskattur á sterkt vín er þannig meira en tvöfalt hærri en í Finnlandi og Svíþjóð, þar sem áfengisverð er hæst af aðildarríkjum ESB. Áfengisgjald á bjór er þriðjungi hærra en í Finnlandi og meira en tvöfalt hærra en í Svíþjóð. Áfengisskatturinn á léttvín er tæplega tvöfalt hærri en í Finnlandi og nærri þrefalt hærri en í Svíþjóð,“ segir á vef Félags atvinnurekenda.

Komið nóg af „fáránlegri skattagleði?“

Félag atvinnurekenda bendir á að í fjárlagafrumvarpi ársins 2020 sé lagt til að „bæta enn í Evrópumetið“ og hækka áfengisgjald um 2,5%. „Það þýðir til dæmis að þriggja lítra kassi af 13,5% rauðvíni, sem kostar í dag rétt tæpar 7.000 krónur, hækkar um 119 krónur. Þá er ekki búið að taka tillit til þeirrar hækkunar á álagningu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu. enn hefur ekki komið fram hversu mikið álagning ÁTVR verður hækkuð og hefur fjármálaráðuneytið ekki svarað fyrirspurnum Félags atvinnurekenda þar um,“ segir á vef félagsins.

Þar er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA, að Ísland sé komið langt fram úr þeim ríkjum sem leggi hæsta skatta á áfenga drykki undir yfirskini lýðheilsusjónarmiða. „Það virðast engin takmörk fyrir því hvað stjórnmálamenn eru tilbúnir að skattpína kaupendur þessarar einu neysluvöru, eins og sífelldar hækkanir áfengisgjaldsins sýna og nú síðast áform um hækkun á álagningu ÁTVR,“ segir hann.

„Við höfum talað fyrir daufum eyrum undanfarin ár, en teljum samt ástæðu til að spyrja enn og aftur: Ætlar enginn stjórnmálamaður að segja stopp; að nú sé komið nóg af þessari fáránlegu skattagleði?“ segir Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK