Forsvarsmenn Bakkastakks, eignarhaldsfélags kísilverksmiðjunnar á Bakka við Húsavík, funda í dag með hluthöfum félagsins þar sem gerð verður grein fyrir stöðunni varðandi rekstur verksmiðjunnar og hefst fundurinn klukkan 11.00.
Greint var frá því fyrr í þessum mánuði að hluthafar kísilverksmiðjunnar, þýska fyrirtækið PCC og íslenskir lífeyrissjóðir, leiti leiða til að fjármagna um fimm milljarða króna innspýtingu sem félagið er talið þurfa til að tryggja rekstrargrundvöll þess.
Fréttir herma að stærstur hluti fjármagnsins muni koma frá PCC eða með hlutafjáraukningu. Verksmiðjan var gangsett í fyrravor en vandræðagangur hefur einkennt starfsemina síðan, tafir á uppsetningu og lækkun á heimsmarkaðsverði kísils.
Ekki er gert ráð fyrir að neinar ákvarðanir verði teknar á upplýsingafundinum. Samhliða fundinum verður einnig haldinn hluthafafundur til þess að ganga formlega frá stjórnarkjöri samkvæmt heimildum mbl.is.