Hagstofan hefur sent frá sér leiðréttingu á tölum um kortaveltu erlendra ferðamanna á Íslandi. Fyrir viku hafði verið greint frá því á vef Hagstofunnar að kortavelta í ágúst, að frádregnum viðskiptum við flugfélög, hefði aukist um 4,7% milli ára.
Hið rétta er að veltan dróst saman um 2,7%, að því er fram kemur í leiðréttingu sem send var út í dag. Var kortaveltan því tæpum 7% minni en áður var talið og stóð í um 29 milljörðum króna. Hinar leiðréttu tölur ríma við tölur sem Rannsóknarsetur verslunarinnar sendi frá sér í morgun.
Villuna má að sögn rekja til villu í gögnum frá kortafyrirtækjum, en þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Hagstofan þarf að leiðrétta áður útgefnar tölur, nú síðast í upphafi mánaðar þegar í ljós kom að landsframleiðsla annars ársfjórðungs hefði verið vanáætluð um 9,1 milljarð og hefði hagvöxtur því í raun verið 2,7% en ekki 1,4%.
Þá er mörgum í fersku minni er mistök voru gerð við útreikning vísitölu neysluverðs haustið 2016, sem höfðu áhrif á öll verðtryggð lán í landinu.