„Stefnum á að fá frekari bætur“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir greiðslur frá Boeing hafa …
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir greiðslur frá Boeing hafa áhrif á lokauppgjör þessa árs. Kristinn Magnússon

Ólíklegt er að endanlegt samkomulag um bætur vegna kyrrsetningar Boeing 737 Max-farþegaþotnanna liggi fyrir fyrr en öll kurl eru komin til grafar í Max-málinu. Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því nú síðdegis að Icelanda­ir hafi náð bráðabirgðasam­komu­lagi við Boeing-flug­véla­fram­leiðand­ann um bæt­ur vegna MAX-flug­véla Icelanda­ir. Kyrr­setn­ing­in sem hef­ur verið í gildi síðan í mars á þessu ári hef­ur valdið flug­fé­lag­inu miklu tjóni.

„Eins og fram kemur þá er þetta hlutagreiðsla, fyrstu bæturnar sem við fáum og við höldum áfram viðræðum og stefnum á að fá frekari bætur,“ segir Bogi.

Spurður hvort einhverjir fyrirvarar séu á bráðabirgðasamkomulaginu segir hann svo ekki vera. „Þetta er fyrsti hluti bótanna og svo höldum við áfram viðræðunum. Væntanlega klárast þetta ekki í heild sinni fyrr en öll kurl eru komin til grafar í Max-málinu. Bráðabirgðasamkomulagið er fyrsta bara skrefið,“ bætir hann við og segir Icelandair hafa átt í viðræðum við Boeing nú um nokkurra mánaða skeið. „Þetta verkefni heldur bara áfram.“

Tefur vinnu um langtímaákvarðanir flotans

Allsendis er óvitað að sögn Boga hvort samningar um fleiri greiðslur náist fyrir árslok. „Það er erfitt að fjalla um nákvæmar dagsetningar á þessu stigi,“ segir hann og kveður greiðslurnar þó klárlega hafa áhrif á lokauppgjör Icelandair fyrir árið.

Fram kom í til­kynn­ingu  Icelanda­ir til Kaup­hall­arinnar í dag að nei­kvæð áhrif á rekst­ur flug­fé­lags­ins hefðu verið 140 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala 30. júní sl. eða um 17 millj­arðar ís­lenskra króna og að þau hefðu haldið áfram að aukast síðan.

Sé hins vegar tekið mið af bráðabirgðasam­komu­lag­inu met­ur Icelanda­ir stöðuna þannig að nei­kvæð áhrif á rekst­ur­inn miðað við dag­inn í dag séu um 135 millj­ón­ir dala og er af­komu­spá fé­lags­ins fyr­ir árið í heild enn óbreytt, eða nei­kvæð um 70-90 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala.

Kyrrsetning Max-vélanna hefur þá tafið vinnu við innan Icelandair við ákvarðanir um langtímamál flota flugfélagsins. Sú vinna hófst í lok síðasta árs og beinist m.a. að því hvort félagið haldi sig áfram við Boeing-vélar, eða skoði að breyta yfir í Airbus.

„Við stefndum að því þegar við hófum vinnuna að taka ákvörðun á þessum ársfjórðungi en vegna óvissunnar út af  Max-málinu er það að tefjast,“ segir Bogi. „Við viljum hafa skýrari mynd hvað Maxinn varðar áður en við tökum ákvörðun til lengri tíma í flotamálunum,“ bætir hann við.

Að sögn Boga gerir Icelandair þá enn ráð fyrir að Max-vélarnar fari á loftið á ný samkvæmt leiðakerfi Icelandair í janúar á næsta ári. Þær fimm flugvélar sem flugfélagið tók á leigu í sumar fara þá úr landi í lok þessa mánaðar og verður einungis ein leiguvél áfram notuð sem hluti af áætlanakerfi Icelandair.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka