Fyrirtækið Flygildi hefur verið að þróa dróna í fuglslíki í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Chalmers-tækniskólann í Svíþjóð og Iowa State-háskólann í Bandaríkjunum. Fulltrúar úr bandarísku viðskiptalífi sem komu til landsins með varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pence, fyrr í þessum mánuði sýndu verkefninu áhuga, sérstaklega fulltrúar úr bandaríska varnar- og öryggisiðnaðinum.
„Í fylgdarliði Pence var teymi sérfræðinga sem tengjast varnar- og öryggismálum. Við áttum í fundum og sýndum tæknina og vakti þetta athygli. Þetta gæti verið gífurlegt tækifæri fyrir Flygildi,“ segir Hjalti Harðarson, sem stendur á bak við verkefnið.
Í fyrstu var hugmyndin ekki að dróninn myndi eiga erindi inn á svið varnarmála, heldur að hann gæti komið að notum við eftirlit og að fæla fugla frá flugbrautum. Hins vegar sé staðan sú að varnar- og öryggisfyrirtæki eru leiðandi í þróun dróna, að sögn Hjalta. Þá er talið að tæki eins og um ræðir hafi fjölbreytt notagildi.
Flygildi hefur þegar hafið samstarfi við Isavia til að þróa dróna sem gæti fælt fugla frá flugbrautum og flugleiðum við flugvelli. Þá hefur Isavia boðist til þess að útvega flugskýli undir prófanir á frumgerðinni og eru vonir um að prófanir geti hafist á Reykjavíkurflugvelli fyrir lok þessa árs. Margir hafa áhuga á að finna lausnir við þeirri hættu sem skapast af fuglum á flugvöllum og fékk félagið nýlega styrk frá Evrópusambandinu til þess að halda áfram þeirri þróun.
„Við höfum náð miklum árangri í þróun hugbúnaðarins, sérstaklega eftir að Peter Höller bættist í hópinn fyrr á þessu ári. Við erum komin á það stig að geta hafið prófanir í stjórnuðu umhverfi. Nú er Isavia að finna flugskýli fyrir okkur,“ útskýrir frumkvöðullinn. „Þegar við höfum lokið prófunum, sem munu taka nokkra mánuði, getum við sleppt tækinu lausu.“
Þetta er ekki fyrsta sinn sem Hjalti stofnar nýsköpunarfyrirtæki, en hann stofnaði Hugrúnu ehf. árið 1982 sem seld var til norskra fjárfesta árið 1997. Árið 1999 stofnaði Hjalti fyrirtækið Gavia sem hannar og framleiðir fjarstýrða kafbáta í Kópavogi en fyrirtækið var selt til bandaríska fyrirtækisins Teledyne Inc árið 2010.