Ferðaþjónusturisinn Thomas Cook á barmi gjaldþrots

Thomas Cook þarf 200 milljónir sterlingspunda til að halda rekstrinum …
Thomas Cook þarf 200 milljónir sterlingspunda til að halda rekstrinum gangandi. AFP

Ferðaþjónustufyrirtækið Thomas Cook sótti í gær eftir neyðarfjármagni frá fjárfestum til að koma í veg fyrir gjaldþrot sem gæti leitt til umfangsmestu fólksflutninga til Bretlands síðan í síðari heimsstyrjöld.

Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu kom fram að þörf væri á allt að 200 milljónum sterlingspunda, sem nemur rúmlega 31 milljarði íslenskra króna, til að koma í veg fyrir gjaldþrot.

Sú fjárhæð kæmi til viðbótar 900 milljóna punda innspýtingu sem fyrirtækið fékk í síðasta mánuði, meðal annars frá stærsta hluthafa félagsins, kínverska ferðaþjónusturisanum Fosun, sem lagði til um helming fjárhæðarinnar og eignaðist um leið 75% hlut í ferðaþjónusturekstri Thomas Cook og 25% hlut í flugrekstri félagsins. Hinn helmingurinn af innspýtingunni kom frá lánardrottnum og bönkum.

Strandaglópar gætu orðið hátt í 200 þúsund

Sérfræðingar segja að komi til gjaldþrots félagsins muni það leiða til þess að allt að 600 þúsund ferðamanna víðsvegar um heiminn muni þurfa að snúa aftur heim til Bretlands og um 150 þúsund af þeim gætu þurft á aðstoð stjórnvalda að halda.

„Við getum staðfest að við höfum sett upp aðgerðaráætlun verði það raunin,“ sagði Richard Taylor, talsmaður bresku flugmálastofnunarinnar BCAA (Britain‘s Civil Aviation Authority) við AFP-fréttastofuna. „Við getum ekki rætt einstaka atriði aðgerðaráætlunarinnar en við höfum farið í samskonar aðgerðir í fortíðinni.“

Ferðaþjónustufyrirtækið, sem á sér 178 ára sögu, hefur nálgast ýmsa aðila með það að markmiði að fá þá til að leggja til fjármagn til að halda rekstrinum gangandi. Þar á meðal eru bresk stjórnvöld.

22 þúsund starfsmenn gætu misst vinnuna

Fyrir tveimur árum  fór flugfélagið Monarch Airlines í gjaldþrot með þeim afleiðingum að bresk stjórnvöld þurftu að veita 110.000 breskum strandaglópum neyðaraðstoð til að koma þeim aftur til síns heima. Þær aðgerðir kostuðu breska skattgreiðendur 60 milljónir punda eða um 9 milljarða króna á gengi dagsins í dag.

Bresk stjórnvöld lýstu ástandinu þá sem „umfangsmestu fólksflutningum til Bretlands á friðartímum“.

Ef Thomas Cook verður gjaldþrota er talið að allt að 22 þúsund starfsmenn ferðaþjónusturisans víða um heim verði atvinnulausir í kjölfarið, þar af 9 þúsund starfsmenn í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK