Gjaldþrot breska ferðaþjónustufyrirtækisins Thomas Cook hefur lítil eða engin áhrif hérlendis, en fyrirtækið flýgur ekki hingað til lands. Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í svari við fyrirspurn mbl.is.
Thomas Cook er rótgróið breskt ferðaþjónustufyrirtæki sem stofnað var fyrir 178 árum. Talið er að rúmlega 150.000 Bretar séu strandaglópar víða um heim vegna gjaldþrotsins og segja bresk yfirvöld þetta mestu mannflutninga á friðartímum.
Þá er talið að um hálf milljón farþega sé á ferðalagi á vegum Thomas Cook víðsvegar um heim.
Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista, segir að eftir því sem hann komist næst muni þetta hafa óveruleg áhrif hérlendis. Hafi þeir selt Íslandsferðir væri það með öðrum flugfélögum og nóg væri framboðið á ferðum á milli Íslands og Bretlands.
„TUI og Jet2, hin bresku ferðaþjónustuveldin, fljúga til Íslands á eigin þotum á meðan Thomas Cook kaupir farmiða hjá öðrum flugfélögum. Hafi þeir verið í Íslandsferðum þá er það frá Bretlandi og framboð á ferðum og flugi þar á milli er mjög mikið þannig að breskum ferðamönnum sem keypt hafa pakkaferðir er þá tryggð heimferð,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.
Þá segir hann einnig að skakkaföll fyrir íslenska ferðaþjónustu ætti að vera óveruleg. Í Bretlandi sé áfallið hins vegar mikið.
„Bresk stjórnvöld þurfa nú í annað skipti á stuttum tíma að standa fyrir miklum fólksflutningum, þegar Monarch-flugfélagið fór þurftu bresk stjórnvöld að fljúga með fólk heim og nú virðist það sama vera upp á teningnum nema í enn meiri mæli.“
Þá segir Kristján, sem búsettur er í Svíþjóð, að gjaldþrotið gæti haft áhrif í Skandinavíu. „Hér í Svíþjóð, Danmörku og Noregu eru stærstu ferðaskrifstofurnar dótturfélög Thomas Cook,“ útskýrir Kristján, en segir þó að enn virðist vera hægt að bóka ferðalög með skrifstofunum.
„Mér skilst að þetta sé margra ára vandi. Staðan var tvísýn árið 2011 og reksturinn þungur. Menn segja ódýrt að kenna hitabylgjum og brexit um að félagið hafi rúllað á endanum, þetta sé rótgrónari vandi í fyrirtækinu,“ segir Kristján spurður um ástæður gjaldþrotsins.
„Svo er það þannig að ferðaskrifstofur víða um heim hafa þurft að endurskipuleggja sig, sérstaklega eftir að lággjaldaflugfélögin fóru að taka svona stóran hluta af markaðnum til sín. Ferðaþjónustufyrirtækin hafa þurft að stokka spilin og bjóða eitthvað betra en lággjaldaflugfélögin eru með.“