Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, skrifaði undir ný viðmið um ábyrga bankastarfsemi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. Landsbankinn er þar í hópi 130 banka víðsvegar að úr heiminum en viðmiðunum er ætlað að tengja fjármálastarfsemi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsáttmálann og vera alþjóðlegur mælikvarði á ábyrga bankaþjónustu.
Viðmiðin voru formlega kynnt við upphaf allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna en þetta er viðamesta samstarfsverkefni alþjóðlega bankakerfisins og Sameinuðu þjóðanna hingað til, að því er Landsbankinn greinir frá.
Þar segir ennfremur, að viðmiðin um ábyrga bankastarfsemi hafi verið þróuð af 30 alþjóðlegum bönkum í samvinnu við UNEP FI (United Nations Environmental Programme - Financial Initiative) og byggist á aðgerðaramma um innleiðingu og ábyrgðarskyldu. Með undirskriftinni skuldbindi bankarnir sig til að beita sér þar sem áhrifavald þeirra er mest, þ.e. í gegnum kjarnastarfsemi sína, og vinna markvisst að því að auka jákvæð áhrif og draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á samfélagið og náttúruna og greina frá því á gagnsæjan hátt.
Þetta er í fyrsta sinn sem settar eru fram alþjóðlegar leiðbeiningar um samþættingu sjálfbærniviðmiða á öllum stigum bankastarfsemi.