Meirihluti stórfyrirtækja ólíklegur til að ná markmiðunum

Mengun yfir borginni Marseille í suðurhluta Frakklands. Mynd úr safni.
Mengun yfir borginni Marseille í suðurhluta Frakklands. Mynd úr safni. AFP

Einungis einn fimmti hluti stærstu fyrirtækja heims er líklegur til að ná að mæta markmiðum Parísarsáttmálans. Guardian greinir frá þessu og segir rannsókn á greinagerðum fyrirtækjanna benda til þess að rúm 80% þeirra séu ólíkleg til að ná markmiðum Parísarsáttmálans fyrir árið 2050.

Rannsóknin tekur til tæplega 3.000 fyrirtækja sem eru skráð á markaði og sýnir rannsóknin að einungis 18% þeirra hafa upplýst um þær aðgerðir sem þau hafa þegar gripið til til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og reyna þannig að sporna gegn því að hlýnun jarðar fari umfram 1,5 gráður.

Rannsóknin tekur til fyrirtækja víða um heim og var unnin af gagnafyrirtækinu Arabesque S-Ray, sem gaf hverju fyrirtæki einkunn byggða á hitamæli sem byggist m.a. á núverandi losun þeirra og vísindalega trúverðugum upplýsingum um fyrirætlanir þeirra til að draga úr losun.

Helmingur líklegur til að standast markmiðin fyrir 2030

Rúmur þriðjungur af 200 stærstu fyrirtækjum heims hefur enn ekki opinberað þær aðgerðir sem þau ætla að grípa til, þrátt fyrir stigvaxandi áhyggjur af að aðgerða sé þörf hið fyrsta eigi að takast að afstýra því að hlýnun jarðar nái hættulegu stigi.

Rúmur þriðjungur af 200 stærstu fyrirtækjum heims hafa enn ekki …
Rúmur þriðjungur af 200 stærstu fyrirtækjum heims hafa enn ekki opinberað þær aðgerðir sem þau ætla að grípa til til að draga úr losun. Kauphöllin við Wall Street. Mynd úr safni. AFP

Andreas Feiner, forstjóri Arabesque S-Ray, sagði fyrirtækin „virðast vera að taka skref til að draga úr áhrifum þeirra á loftslagsvána“, en að mörg kjósi engu að síður að halda fullu umfangi losunar sinnar leyndu til að forðast neikvæð áhrif á fjárfestingar.

Er hitamæli Arabesque ætlað að gera fjárfestingar gagnsærri, en þau fyrirtæki sem ekki upplýsa um losun sína fá samkvæmt honum 3 gráða hækkun.

Um helmingur fyrirtækjanna 2.900, sem rannsóknin tók til, er hálfnaður á þeirri vegferð að ná þeim markmiðum Parísarsáttmálans að halda hlýnun jarðar undir 1,5 gráðum fyrir árið 2030.

Sú vinna mun hins vegar ekki duga til að halda hlýnun jarðar í skefjum til langframa og samkvæmt rannsókninni verður ekki nema fimmtungur fyrirtækjanna enn á réttri braut árið 2050. Er rúmur fjórðungur þeirra raunar sagður líklegur til að hækka hitastigið um í 2,7 gráður.

Segir Guardian þetta vera enn meira áberandi þegar 200 stærstu fyrirtækin eru skoðuð.

Lítill en öruggur gluggi til að grípa til aðgerða

Útlit er fyrir að tveir þriðju G20-ríkjanna verði á áætlun með að halda hlýnun jarðar undir 1,5 gráðum árið 2030, en verði ekki gripið til róttækra aðgerða til að draga úr losun þá muni þessi fjöldi hrapa niður í 18% fyrir árið 2050.

Christiana Figueres, fyrrverandi framkvæmdastjóri aðgerða gegn loftslagsvánni hjá Sameinuðu þjóðunum, segir hitamæli Arabesque bjóða upp á möguleikann til að vera „breytingaafl“.

Tölurnar voru birtar í fyrsta skipti í dag sem undanfari skýrslu frá loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna sem munu kynna skýrslu sína síðar í dag. Talið er að þar muni koma fram að án bráðra aðgerða standi mannkynið frammi fyrir áður óþekktri hættu á hækkun yfirborðs sjávar sem ógni strandbyggðum og hreki milljónir manna frá heimilum sínum.

„Við höfum lítinn en öruggan glugga til að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að halda hlýnuninni undir 1,% gráðu,“ sagði Figueres.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK