Straumlínulaga siglingakerfið með færri og stærri skipum

Ljósmynd/Eimskip

Eimskip mun um miðjan október gera breytingar á gámasiglingakerfi félagsins til að auka þjónustu við viðskiptavini og hagræða í rekstri. Fyrirtækið segir að breytingarnar séu mikilvægur hlekkur á vegferð félagsins til hagræðingar og styrkingar á grunnstoðum í rekstri. 

Einnig eru breytingarnar undanfari á samstarfi við Royal Arctic Line (RAL) sem áætlað er að hefjist á fyrsta ársfjórðungi 2020, að því er félagið greinir frá. Markmið félagsins um nettó lækkun rekstrarkostnaðar er á bilinu 7-9 milljónir evra á ársgrundvelli. 

Fram kemur að breytt siglingakerfi muni einfalda siglingaleiðir til og frá Evrópu og Skandinavíu og gera félaginu kleift að bjóða brottfarir frá Árósum og Rotterdam til Íslands degi síðar en nú er ásamt styttri flutningstíma. Eimskip muni áfram bjóða hraðþjónustu fyrir útflutning og innflutning á ferskum vörum til og frá Íslandi og Færeyjum.

Taka inn stærri og hagkvæmari skip

„Félagið mun fækka um eitt skip í Evrópuhluta kerfisins en á móti taka í notkun stærri skip og þar með  viðhalda sambærilegri flutningsgetu, en með lægri einingakostnaði. Nýlegar fjárfestingar í hafnaraðstöðu í Sundahöfn, með stækkun gámahafnar, nýjum gámakrana og stærri viðlegu er forsenda þess að geta tekið inn stærri og hagkvæmari skip.   

Eimskip mun formlega hefja rekstur á nýju siglingakerfi um miðjan október,“ segir í tilkynningunni.

Helstu áherslur:

  • Aukin og bætt þjónusta við viðskiptavini í innflutningi til Íslands með brottför einum degi seinna frá helstu höfnum í Evrópu og styttri flutningstíma sem skapar aukin tækifæri fyrir innflutning á ferskum vörum
  • Einfaldari siglingaleiðir með stærri skipum auka áreiðanleika í siglingakerfinu
  • Rauða leiðin (Skandinavía) er tilbúin fyrir samstarf við RAL í samræmi við samning um samnýtingu á plássi í skipum (VSA) sem hefst formlega með afhendingu tveggja nýrra 2150 TEUS skipa
  • Skipum í gámasiglingakerfinu fækkað um eitt
  • Sambærileg afkastageta með stærri skipum og lægri einingakostnaði
  • Markmið um nettó lækkun rekstrarkostnaðar fyrir heildarbreytingarnar, þ.m.t. samstarf við RAL, er á bilinu 7-9 milljónir evra á ársgrundvelli en mun ekki koma fram að fullu fyrr en samstarfið við RAL hefst og er markmiðið með fyrirvara um breytingar á nokkrum mikilvægum rekstrarforsendum

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, segir í tilkynningu, að félagið hafi á undanförnum mánuðum verið á vegferð til aukinnar arðsemi og styrkingar á grunnstoðum félagsins.

Auki áreiðanleika í kerfinu

„Breytingarnar á gámasiglingakerfinu sem við kynnum í dag eru mikilvægt skref á þeirri vegferð, sem að auki gerir félaginu kleift að auka þjónustu við viðskiptavini og áreiðanleika í kerfinu. Við erum að straumlínulaga siglingakerfið með færri og stærri skipum á einfaldari siglingaleiðum þannig að við getum flutt sambærilegt magn, með færri viðkomum í höfnum og með þeim hætti lækkað einingakostnað. Að auki munu þessar breytingar leggja grunninn að áætluðu samstarfi við RAL.

Það er ánægjulegt að geta boðið viðskiptavinum styttri flutningstíma frá helstu höfnum í Evrópu til Íslands með brottför degi seinna sem skapar tækifæri í innflutningi á ferskum vörum. Einnig mun nýja siglingakerfið styrkja útflutningsþjónustu frá Færeyjum og vera vel í stakk búið að styðja við frekari vöxt í Trans-Atlantic þjónustu.

Markmið félagsins um nettó lækkun rekstrarkostnaðar fyrir nýja siglingakerfið, þ.m.t. samstarf við RAL, er á bilinu 7-9 milljónir evra á ársgrundvelli. Það er hinsvegar mikilvægt að taka fram að markmið er háð nokkrum mikilvægum forsendum s.s. skilvirkni og áreiðanleika nýrra skipa og leiguskipa, skilvirkni í hafnarstarfsemi, samstarfinu við RAL og þróun olíumarkaða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK