Eins og áður hefur komið fram er það athafnakonan Michele Roosevelt Edwards, stjórnarformaður US Aerospace Associates LLC, sem stendur að endurreisn WOW, en hún hefur fest kaup á flugtengdum eignum úr þrotabúi flugfélagsins.
Heimildir ViðskiptaMoggans herma að stefnt sé að því að fljúga jómfrúarflug hins endurreista félags, sem Edwards hefur kallað WOW 2, í síðasta lagi um miðjan næsta mánuð. Upphaflega átti að fljúga fyrsta flugið frá Dulles-flugvelli í Washington hingað til Íslands í byrjun október, en það mun ekki ganga eftir.
Eins og fram kom í Fréttablaðinu fyrr í þessum mánuði greiddi Edwards 50 milljónir króna fyrir eignirnar en þar á meðal eru fjólubláu búningarnir, margvíslegar rekstrarvörur, varahlutir, bókunartækni og handbækur. Þó gengur enn, samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans, treglega að fá eignirnar afhentar í nothæfu ástandi.
Eitt af því sem heimildarmenn blaðsins herma að hafi ekki fengist afhent, eru lén félagsins, wow.is og wowair.com, en talið er að það muni þó ekki standa í vegi fyrir því að hægt verði að hefja sölu á miðum.