„Eins og gefur að skilja hefur þetta verið erfiður dagur alls staðar í bankanum en ekki síst í höfuðstöðvunum þar sem margir starfsmenn voru að kveðja okkur í dag,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, í samtali við mbl.is.
Hundrað starfsmönnum bankans var sagt upp í dag. Fjórir af hverjum fimm sem sagt var upp í dag störfuðu í höfuðstöðvum bankans en einn af hverjum fimm í útibúum. 93% starfsmannanna störfuðu á höfuðborgarsvæðinu.
Um er að ræða mestu fjöldauppsagnir sem Arion banki hefur ráðist í frá því að bankinn var stofnaður á grunni gamla Kaupþings eftir hrun íslenska fjármálakerfisins haustið 2008.
Uppsagnirnar tengjast nýju skipulagi bankans sem tók gildi í dag og var samþykkt á fundi stjórnar Arion banka í morgun. „Samhliða því erum við að fara yfir okkar skipulag og mönnun. Undirbúningurinn hefur staðið yfir í þónokkurn tíma,“ segir Benedikt og vísar í orð sín á kynningarfundi árshlutauppgjörs fyrir annan ársfjórðung í ágúst þar sem hann greindi frá því að stefnumótunarvinna stæði yfir.
„Við erum búin að vera að rýna í okkar rekstur ofan í kjölinn. Við erum að teikna upp nýjar áherslur og nýtt skipurit og mannabreytingar eru teknar í samræmi við það,“ bætir Benedikt við, en hann tók við stöðu bankastjóra af Höskuldi H. Ólafssyni í júlí.
Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri starfsmanna fjármálafyrirtækja, gagnrýnir að bankinn hafi ekki talið sig geta upplýst um uppsagnirnar því bankinn sé skráður á markað og telur hann að lög um hópsuppsagnir hafi verið brotin með uppsögnunum í dag. Benedikt segir að bankinn hafi fylgt lögum og reglum í hvívetna.
„Við þurfum líka að fylgja lögum sem lúta að verðbréfamarkaðnum og uppfylla þau skilyrði og skyldur sem fylgja því að vera skráð hlutafélag í tveimur kauphöllum. Við vorum að tryggja að þetta væri allt í samræmi við lög og gert eins vel og hægt er. Það eru aðilar innan bankans sem vissu af þessum aðgerðum og fóru þeir á innherjalista. Við verðum að horfa til þessa þegar við erum að miðla mögulega verðmótandi upplýsingum sem eru ekki komnar í framkvæmd,“ segir Benedikt og bendir á að endanleg ákvörðun um fjölda og eðli uppsagnanna og skipulagsbreytinga hafi verið tekin í morgun.
Ekki verða gerðar neinar grundvallarbreytingar á starfsemi í útibúum Arion banka í kjölfar breytinganna og engu þeirra verður lokað en mögulega verða einhverja mönnunarbreytingar. Benedikt bendir á í því samhengi að ein af helstu áskorunum bankans sé að aðlaga starfsemina breyttum veruleika fjármálafyrirtækja almennt, meðal annars í ljósi sjálfvirknivæðingar.
„Ég hef bent á að það eru fjörtíu sinnum fleiri viðskiptavinir sem heimsækja netbankann og appið á hverjum degi en heimsækja útibúin okkar. Þessir viðskiptavinir kjósa að nýta þjónustu okkar þar frekar en í útibúunum. Við horfum til þessa og erum alltaf að aðlaga þjónustu okkar í útibúanetinu breyttum þörfum. Það getur því verið að mönnun og afgreiðslutími muni koma til með að breytast.“
Aðspurður hvort von sé á frekari uppsögnum á næstunni svarar Benedikt neitandi. „Það segir sig sjálft að við erum ekki að fara í aðra svona aðgerð.“