Stærsta hópuppsögn Arion banka frá stofnun

„Það er verið að færa til verkefni og það snertir …
„Það er verið að færa til verkefni og það snertir marga,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson upplýsingafulltrúi bankans. mbl.is/Ómar

Ekki verða gerðar neinar grundvallarbreytingar á starfsemi í útibúum Arion banka í kjölfar þeirra umfangsmiklu skipulagsbreytinga sem bankinn kynnti í dag. Engu þeirra verður lokað, en mögulega verða einhverjar mönnunarbreytingar, að sögn Haraldar Guðna Eiðssonar, forstöðumanns samskiptasviðs bankans.

Eins og fram kom í tilkynningu frá bankanum hafa flestir, eða um áttatíu af þeim um hundrað starfsmönnum sem missa vinnuna í dag, verið starfandi í höfuðstöðvum bankans. Sviðum bankans er fækkað um tvö og snerta uppsagnirnar nær allar deildir innan bankans. „Það er verið að færa til verkefni og það snertir marga,“ segir Haraldur Guðni.

Samkvæmt heimildum mbl.is hafði þegar í gær kvisast út á meðal starfsfólks bankans að til stæði að ráðast í uppsagnirnar í dag, en þá var búið að taka frá öll fundarherbergi í höfuðstöðvunum fyrir hádegi undir einkafundi, sem mun vera óvenjulegt. Haraldur Guðni segir að fundirnir standi enn yfir.

Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka.
Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka.

Aldrei fleiri misst vinnuna hjá bankanum í einu

Um er að ræða mestu fjöldauppsagnir sem Arion banki hefur ráðist í frá því að bankinn var stofnaður á grunni gamla Kaupþings eftir hrun íslenska fjármálakerfisins haustið 2008.

Síðasta fjöldauppsögn hjá bankanum var í september árið 2016, en þá misstu 46 manns vinnuna. Árið 2011 var einnig fjölda fólks sagt upp hjá bankanum, þá 57 starfsmönnum.

Markaðir virðast jákvæðir

Arion banki er skráður á hlutabréfamarkað bæði í kauphöllinni hér heima og í Svíþjóð. Á báðum stöðum virðast fjárfestar taka tilkynningu bankans um skipulagsbreytingar vel.

Í sænsku kauphöllinni hefur gengi bréfa í bankanum hækkað um 1,7% frá því að markaðir voru opnaðir í morgun og í kauphöllinni við Bolholt hefur gengið hækkað um tæp 2,8% það sem af er degi, mest allra fyrirtækja sem þar eru skráð.

Gengi hlutabréfa í Arion banka hefur hækkað í kauphöllinni í …
Gengi hlutabréfa í Arion banka hefur hækkað í kauphöllinni í morgun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK