Margir vilja búa á Hlíðarenda

Teikning/Alark arkitektar

Fyrsta íbúðin í nýjum íbúðakjarna á Hlíðarenda var afhent í byrjun vikunnar. Íbúðirnar eru í nýrri götu, Smyrilshlíð, en þar hafa fimm stigagangar komið í sölu.

Á Hlíðarenda verða sex reitir með íbúðum. Fyrsti reiturinn, reitur B, fór í sölu sumarið 2017. Þar eru 40 íbúðir í fjölbýlishúsinu Arnarhlíð 1.

Í Smyrilshlíð. Horft yfir Icelandair-hótelið frá einni þakíbúðinni.
Í Smyrilshlíð. Horft yfir Icelandair-hótelið frá einni þakíbúðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Uppsteypa á íbúðareitum C, D, E og F er langt komin en þar verða alls 673 íbúðir.

Þar af eru 178 íbúðir á E-reit sem er lengst kominn í byggingu. Íbúðir í þremur stigagöngum komu í sölu í júní og þær fyrstu voru afhentar í vikubyrjun. Íbúðir í tveimur stigagöngum til viðbótar komu í sölu í byrjun september og koma þær til afhendingar í janúar. Alls eru þetta 73 íbúðir og er þegar búið að selja um 60% þeirra. Það er athyglisvert í ljósi þess að húsin eru enn í byggingu og malarvegir milli húsa.

Smyrilshlíð – suðurhlið. Íbúðir í þessum stigagöngum eru nær tilbúnar.
Smyrilshlíð – suðurhlið. Íbúðir í þessum stigagöngum eru nær tilbúnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar Morgunblaðið leit inn í opið hús á sunnudaginn var höfðu um 40 pör skoðað íbúðir á tveimur tímum og átta skráð sig fyrir íbúð. Það bendir ekki til ládeyðu á markaðnum. 

Fullfrágenginn 2020

Næstu þrír stigagangar koma í sölu í mars á næsta ári en þeir eru Smyrilshlíð 10 og tveir stigagangar á austurhliðinni, í Fálkahlíð 6 og Hlíðarfæti 17. Sölunni á E-reit lýkur síðan með því að þrír stigagangar á suðurhliðinni við Hlíðarfót 11, 13 og 15 koma í sölu næsta sumar. Stefnt er að því að reiturinn verði fullfrágenginn haustið 2020.

Haukahlíð 5. Útsýni úr einni þakíbúðinni sem snýr til vesturs. …
Haukahlíð 5. Útsýni úr einni þakíbúðinni sem snýr til vesturs. Flugbrautirnar sjást vel. Þetta eru fyrstu íbúðirnar í Reykjavík sem hafa slíkt útsýni yfir flugvallarsvæðið úr nálægð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Garðar Hólm, fasteignasali hjá Trausta fasteignasölu, segir íbúðirnar á E-reitnum af fjölbreyttri stærð. Þar sé allt frá litlum íbúðum sem henti fyrstu kaupendum upp í stórar þakíbúðir.

„Hingað er að veljast mjög blandaður hópur. Meðal kaupenda eru fyrstu kaupendur, fjölskyldur og fólk sem er að minnka við sig. Fyrstu kaupendur sækja mikið í minnstu íbúðirnar en allar eru íbúðirnar á hagkvæmu verði. Hér eru margar tegundir af eignum. Íbúðirnar eru 2-5 herbergja en öllum fylgir stæði í bílageymslu, sem er mikill kostur. Þá fylgja öllum íbúðum rúmgóðar geymslur í kjallara,“ segir Garðar.

Stórir vinnustaðir í nágrenninu

„Staðsetningin er sérstaklega góð. Hér erum við nærri háskólunum tveimur og stórum vinnustöðum á borð við Landspítalann og Íslenska erfðagreiningu. Margir sjá sér greinilega leik á borði og flytja nær vinnu til að sleppa við umferðaröngþveitið sem skapast á morgnana og við lok vinnudags. Héðan er hægt að ganga eða hjóla í vinnu eða skóla,“ segir Garðar.

Garðar Hólm segir íbúðirnar henta fjölbreyttum hópi fólks.
Garðar Hólm segir íbúðirnar henta fjölbreyttum hópi fólks. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá verði góðar almenningssamgöngur á svæðinu, sem verði síðar tengt áformaðri borgarlínu.

Íbúðirnar á E-reit afhendast fullbúnar með gólfefnum. Þær eru með stöðluðum innréttingum og tækjum. Almennt er gert ráð fyrir þvottavél og þurrkara inni á baðherbergi. Þá mynda eldhús og stofa eitt rými og er eldunareyja úti á gólfi í stærri íbúðunum. Það vekur sérstaka athygli hversu mikil lofthæð er í íbúðunum á 4. hæð.

Mikið spurt um þakíbúðirnar

Íbúðirnar sem komið hafa í sölu eru á hæðum 1-4. Þakíbúðir á fimmtu hæð hafa hins vegar ekki verið formlega auglýstar til sölu.

Myndin er tekin af svölum þakíbúðar í Haukahlíð 5. Skerjafjörðurinn …
Myndin er tekin af svölum þakíbúðar í Haukahlíð 5. Skerjafjörðurinn og Álftanesið blasa við í suðri. Nýtt hverfi verður í Skerjafirði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Garðar segir aðspurður að um 14 þakíbúðir sé að ræða. Frágangurinn á þeim sé skemmra á veg kominn enda muni kaupendur hugsanlega vilja hanna þær eftir þörfum. Þær séu hér um bil 160-320 fermetrar að stærð, að meðtalinni geymslu og minnst einu bílastæði. Margir hafi þegar spurst fyrir um íbúðirnar. Þá séu nokkrar fráteknar. Miðað við að fermetrinn kosti 600 þúsund kosta slíkar íbúðir 96-192 milljónir.

„Það er gjarnan farið frjálslega með hugtakið þakíbúð. Menn kalla íbúðir á efstu hæð þakíbúðir þótt margt vanti upp á. Þakíbúðirnar hér standa hins vegar undir nafni. Flestar hafa þakgarð og allar eru með stórum hjónasvítum. Þá eru í þeim stórar stofur með nægu rými fyrir húsgögn og listmuni,“ segir Garðar.

Stærri íbúðirnar afhendast með eldhúseyju sem tengist stofunni.
Stærri íbúðirnar afhendast með eldhúseyju sem tengist stofunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann sýndi Morgunblaðinu eina af þakíbúðunum sem snúa til vesturs að Háskóla Íslands. Gert er ráð fyrir stórri hjónasvítu, fataherbergi og stóru baðherbergi í syðri endanum. Stór stofa er í íbúðinni, þvottahús við innganginn, baðherbergi og svefnherbergi í norðurendanum. Svalir snúa bæði til vesturs og suðurs. Gluggar eru gólfsíðir og hleypir það mikilli birtu inn í íbúðina. Frá íbúðinni er mikið útsýni yfir flugvöllinn.

Síðan var litið inn í tvær þakíbúðir sem snúa til norðurs. Þær eru með stórum þakgörðum og er annar þeirra til dæmis um 90 fermetrar og með útsýni yfir Þingholtin og Hljómskálagarð (sjá mynd á bls. 32, síðunni hér á undan). Með þakíbúðunum fylgja bílskúrar, stórar geymslur og stæði í bílageymslu. Geymslur og skúr eru samtals að meðaltali um 50 fermetrar.

Öskjuhlíðin er steinsnar frá byggingarsvæðinu á Hlíðarenda.
Öskjuhlíðin er steinsnar frá byggingarsvæðinu á Hlíðarenda. mbl.is/Kristinn Magnússon
Í Smyrilshlíð. Um 90 fermetra þaksvalir fylgja þessari íbúð á …
Í Smyrilshlíð. Um 90 fermetra þaksvalir fylgja þessari íbúð á fimmtu hæð. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka