Samráðsskyldan enn til staðar þótt fyrirtæki sé skráð í kauphöll

100 starfsmönnum Arion banka var sagt upp í síðustu viku. …
100 starfsmönnum Arion banka var sagt upp í síðustu viku. Er um stærstu fjöldauppsagnir bankans að ræða frá því hann var stofnaður á grunni gamla Kaupþings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sérfræðingur í vinnurétti segir skýrt að fjármálafyrirtækjum sem skráð eru í kauphöll beri samt sem áður að hafa samráð við trúnaðarmenn fyrir hópuppsagnir samkvæmt 5. og 6. grein laga um hópuppsagnir. Þó sé óljóst hvenær það samráð þurfi að fara fram og túlka má lögin á þann veg að það sé undir atvinnurekandanum komið að leggja mat á það. 

Í kjölfar hópuppsagnar Arion banka í síðustu viku drógu forsvarsmenn Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja það í efa að Arion banki hafi farið að lögum við framkvæmd uppsagnanna. Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði í viðtali við RÚV að bankinn hefði ekki farið á svig við lög um hópuppsagnir og að líka þyrfti að fara að lögum um verðbréfamarkað. 

Forsvarsmenn SSF hafa þó haldið því fram að ekkert samráð hafi falist í því að trúnaðarmönnum hafi verið greint frá uppsögnunum sama morgun og um 100 starfsmönnum bankans var sagt upp. 

Samráðsskyldan hverfur ekki 

Lára Valgerður Júlíusdóttir, lögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, segir ljóst að fjármálafyrirtæki verði lögum samkvæmt að hafa samráð við trúnaðarmenn stéttarfélaga vegna hópuppsagna, jafnvel þó að fyrirtæki séu skráð í kauphöll. 

Lára Júlíusdóttir.
Lára Júlíusdóttir.

„Eins og ég skil málið er bankinn að bera það fyrir sig að vegna þess að hann er skráð félag í kauphöllinni hafi þeim ekki verið kleift að hafa samráð með þeim hætti sem ella hefði verið gert, ef þeir hefðu ekki verið skráðir í kauphöllinni það er að segja. 

„Það er ekki þar með sagt að þeir séu lausir undan samráðsskyldunni. Ég lít svo á að samráðsskyldan sé eftir sem áður til staðar á grundvelli laga um hópuppsagnir, en að sjálfsögðu segir ósköp lítið um samráðsskylduna í lögunum, það er að segja hvenær nákvæmlega samráð eigi að fara fram,“ segir Lára í samtali við mbl.is. 

„Svo fljótt sem auðið er“ afar matskennt 

„Í lögunum segir að atvinnurekanda beri að hafa samráð „svo fljótt sem auðið er“. Það orðalag felur í sér matsatriði sem atvinnurekandinn hefur. Hvenær er „svo fljótt sem auðið er? Er það 10 dögum áður, er það daginn áður eða er það morguninn sem þetta gerist?“ spyr Lára. 

„Það er erfitt að halda því fram að bankinn hafi verið að brjóta á rétti fólksins með því að hafa ekki samráð fyrr. Ég lít svo á að það sé skylda atvinnurekanda að láta vita svo fljótt sem auðið er en hvenær það er er óljóst. Að sjálfsögðu hlýtur þetta þó að hafa verið planað með einhverjum fyrirvara og það var ekki byrjað á því að tala við trúnaðarmanninn, það er alveg ljóst. En ég get þó ekki séð að þeim hafi borið skylda til þess. Þetta hlýtur að velta á aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig,“ segir Lára. 

Hópuppsagnir Arion banka í síðustu viku eru mestu fjöldauppsagnir sem bankinn hefur ráðist í frá því að bankinn var stofnaður á grunni gamla Kaupþings eftir hrun íslenska fjármálakerfisins fyrir 11 árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK