Skráð gengi fagfjárfestasjóðsins GAMMA: Anglia var fært úr 105 niður í 55 í gær, sem þýðir að sá sem átti 105 milljóna króna eign í sjóðnum í fyrradag á 55 milljónir í dag. Á meðal eigenda í sjóðnum er lífeyrissjóðurinn Lífsverk, en lífeyrissjóðurinn var einn þeirra íslensku aðila sem árið 2017 settu um það bil fimm milljarða króna inn í sjóðinn, sem fjárfesti í fasteignaverkefnum í Bretlandi.
Jón L. Árnason framkvæmdastjóri Lífsverks, segir í samtali við mbl.is að sjóðurinn hafi fengið tilkynningu frá Anglia um niðurfærsluna í gær og neikvæð áhrif hennar á eign Lífsverks nemi 43 milljónum frá því lífeyrissjóðurinn keypti upphaflega í sjóðnum árið 2017, en í millitíðinni hafði gengi sjóðsins þó verið fært upp.
„Við í raun og veru erum ekki búin að fá skýringar á þessu, en við erum búin að óska eftir því að hitta forsvarsmenn sjóðsins á næstu dögum og fá nánari skýringar á því sem hefur gerst,“ segir Jón.
Lífsverk átti ekki neitt í fjárfestingarsjóðnum GAMMA: Novus, en í gær varð ljóst að eigið fé þess sjóðs, sem síðustu áramót var sagt vera 5,2 milljarðar króna, væri í raun lítið sem ekkert, eða nokkrir tugir milljóna. Aðaleign þess sjóðs er fasteignafélagið Upphaf.
Í frétt Kjarnans í dag kemur fram að Lífeyrissjóður Vestmannaeyja hafi átt hlutdeildarskírteini í GAMMA: Novus og að niðurfærsla á fjárfestingu sjóðsins hefði numið um 64,3 milljónum króna.
Tryggingafélögin TM og Sjóvá greindu frá því í gær í tilkynningum að niðurfærsla gengis GAMMA: Novus myndi hafa neikvæð áhrif á afkomu þeirra.