Gengi GAMMA: Anglia fært úr 105 í 55

Skráð gengi fag­fjár­festa­sjóðsins GAMMA: Anglia var fært úr 105 niður í 55 í gær, sem þýðir að sá sem átti 105 millj­óna króna eign í sjóðnum í fyrra­dag á 55 millj­ón­ir í dag. Á meðal eig­enda í sjóðnum er líf­eyr­is­sjóður­inn Lífs­verk, en líf­eyr­is­sjóður­inn var einn þeirra ís­lensku aðila sem árið 2017 settu um það bil fimm millj­arða króna inn í sjóðinn, sem fjár­festi í fast­eigna­verk­efn­um í Bretlandi.

Jón L. Árna­son fram­kvæmda­stjóri Lífs­verks, seg­ir í sam­tali við mbl.is að sjóður­inn hafi fengið til­kynn­ingu frá Anglia um niður­færsl­una í gær og nei­kvæð áhrif henn­ar á eign Lífs­verks nemi 43 millj­ón­um frá því líf­eyr­is­sjóður­inn keypti upp­haf­lega í sjóðnum árið 2017, en í millitíðinni hafði gengi sjóðsins þó verið fært upp.

„Við í raun og veru erum ekki búin að fá skýr­ing­ar á þessu, en við erum búin að óska eft­ir því að hitta for­svars­menn sjóðsins á næstu dög­um og fá nán­ari skýr­ing­ar á því sem hef­ur gerst,“ seg­ir Jón.

Lífs­verk átti ekki neitt í fjár­fest­ing­ar­sjóðnum GAMMA: Novus, en í gær varð ljóst að eigið fé þess sjóðs, sem síðustu ára­mót var sagt vera 5,2 millj­arðar króna, væri í raun lítið sem ekk­ert, eða nokkr­ir tug­ir millj­óna. Aðal­eign þess sjóðs er fast­eigna­fé­lagið Upp­haf.

Í frétt Kjarn­ans í dag kem­ur fram að Líf­eyr­is­sjóður Vest­manna­eyja hafi átt hlut­deild­ar­skír­teini í GAMMA: Novus og að niður­færsla á fjár­fest­ingu sjóðsins hefði numið um 64,3 millj­ón­um króna.

Trygg­inga­fé­lög­in TM og Sjóvá greindu frá því í gær í til­kynn­ing­um að niður­færsla geng­is GAMMA: Novus myndi hafa nei­kvæð áhrif á af­komu þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK