Knattspyrnuumboðsmennirnir Bjarki Gunnlaugsson og Magnús Agnar Magnússon, sem rekið hafa umboðsmannaskrifstofuna Total Football undanfarin ár, söðluðu um og gengu til liðs við stærstu umboðsmannaskrifstofu í heimi í síðustu viku, Stellar Group.
Eru það miklar gleðifréttir fyrir íslenskan fótbolta að sögn Bjarka þar sem tengslanet þeirra félaga stækkar og aðgengi að upplýsingum eykst mjög með breytingunni. „Markmiðið er að fjölga leikmönnum í stærri deildum,“ segir Bjarki í ViðskiptaMogganum í dag en þeir félagar hafa nú um 40 leikmenn á sínum snærum.
Bjarki og Magnús munu reka Norðurlandadeild skrifstofunnar, Stellar Nordic, og í því felast vaxtartækifæri að sögn Bjarka. „Hugmyndin er að vera sýnilegri með Stellar sem vörumerki. Það er ekkert því til fyrirstöðu að við reynum líka að ná til bestu leikmannanna í Danmörku og Svíþjóð, þó að í grunninn séum við að færa okkur til fyrir íslensku leikmennina. Við viljum alltaf standa okkur gagnvart þeim,“ segir Bjarki. Til framtíðar felist, að mati Bjarka, tækifæri í því, að vera með viðveru á Norðurlöndum undir merkjum Stellar ef áhugaverðir leikmenn koma upp og taka á þann hátt slaginn við aðrar umboðsskrifstofur. „Það hefði verið erfitt að gera það sem Total Football. En hugsunin er ekki sú að hrúga inn sænskum eða dönskum leikmönnum heldur að velja úr og eiga möguleika á að vera með í leiknum sem Stellar.“