Áætlun nýrra forsvarsmanna fasteignasjóðsins GAMMA: Novus, sem lækkaði metið eigið fé sitt úr um 3,9 milljörðum króna niður í 40 milljónir króna á mánudag, felur meðal annars í sér að skuldabréfaeigendur sem keyptu í skuldabréfaútboði fasteignafélagsins Upphafs, sem er að fullu í eigu GAMMA: Novus, í maí sl., komi með nýtt fé inn í félagið til að bæta stöðu þess. Nafnvirði útgáfunnar í maí var 2,7 milljarðar króna, en um það bil 20 aðilar keyptu í því útboði.
Máni Atlason nýráðinn framkvæmdastjóri GAMMA Capital Management hf., sem er í eigu Kviku banka, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að fjárfestarnir hafi nokkra daga til að meta hvort þeir taki þátt í nýju skuldabréfaútboði. „Upphaf er núna í framkvæmdafasa og ljóst að fyrri áætlanir um fjárþörf vegna framkvæmdanna standast ekki. Það er því nauðsynlegt að fá inn nýtt fé, annars stoppa allar framkvæmdir. Vinna við öflun fjármagns er langt komin. Það eru mikil verðmæti inni í félaginu og við teljum okkur hafa lagt fram trúverðuga áætlun sem er líkleg til að verja verðmæti skuldabréfaeigenda en það er ljóst að kröfuhafar Upphafs þurfa að vinna með okkur að lausn málsins,“ segir Máni. Fundur kröfuhafa hefur verið boðaður og verður haldinn í næstu viku.
Eins og kom fram í máli Sigurðar Viðarssonar, forstjóra TM, í frétt í Morgunblaðinu í gær, var stöðunni [stöðu Upphafs] lýst sem „allt annarri“, eins og Sigurður orðaði það, þegar skuldabréfin voru seld í maí. Sagðist hann halda að skuldabréfaeigendur myndu vilja skoða málið vel. TM var einn fjárfesta í því útboði.
Máni segir að nýtt teymi hafi komið inn í GAMMA í júlí og hann sjálfur um helgina. Hann geti því ekki svarað til um skuldabréfaútboðið í maí sl. „Við komum að sjóðnum nýlega. Allur okkar fókus er á að upplýsa fjárfesta um stöðu mála og að verja verðmæti eigna sjóðsins.“
Að sögn Mána eru helstu ástæður á miklum mun á mati á virði eigin fjár sjóðsins endurmat á endursöluvirði og kostnaðarhækkanir. „Svo beitum við annarri aðferð við að meta fjármagnskostnað en fyrri umsjónarmenn sjóðsins gerðu.“
Auk GAMMA: Novus hefur gengi annars fagfjárfestasjóðs GAMMA, GAMMA: Anglia verið fært úr 105 í 55. Þannig hefur virði hans lækkað úr jafnvirði 2,6 milljörðum króna í tæpan 1,5 milljarð króna. „Okkar ráðgjafar eru í Bretlandi núna að fara í saumana á því verkefni einnig,“ segir Máni.
Í tilkynningu frá GAMMA segir að við mat á stöðu GAMMA: Anglia hafi komið í ljós að verkstjórn eins samstarfsaðila sjóðsins í Bretlandi hafi verið verulega ábótavant og kostnaður vanmetinn.
„Hefur sjóðurinn fært fjárfestingar sem gerðar voru í samstarfi við umræddan aðila niður, auk kostnaðar við undirbúning byggingar fjölbýlishúss sem hafnað var af skipulagsyfirvöldum,“ segir í tilkynningunni og því er bætt við að nýir aðilar hafi fengnir til að hafa umsjón með verkefnum GAMMA: Anglia í Bretlandi.
„Forgangsverkefni hjá nýju teymi GAMMA: Anglia til næstu mánaða er að hámarka endurheimtur skírteinishafa.“
Fréttin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem fylgir Morgunblaðinu í dag, en inn í niðurlag hennar hefur verið bætt upplýsingum sem fram komu í tilkynningu GAMMA í morgun.