Framkvæmdastjóri verkfræðistofu sem vann kostnaðarmat vegna byggingar 129 íbúða á Kársnesi segir að kostnaðaráætlun fyrirtækisins hafi verið hunsuð og stjórnendur Upphafs fasteignafélags, sem er í eigu GAMMA, hafi samið aðra áætlun innanhúss og kynnt hana hagsmunaaðilum. Sú áætlun hafi verið verulega vanáætluð. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
„Við vísum því alfarið á bug að óeðlilegar greiðslur hafi borist til okkar og skiljum ekki hvaðan sú umræða kemur,“ segir Ásmundur Ingvarsson, framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar, að því er segir í Fréttablaðinu.
Kvika banki eignaðist GAMMA Capital Management hf. í mars á þessu ári og hefur félagið verið dótturfélag bankans síðan þá. Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að endurskipulagningu á eignastýringarstarfsemi bankans og líkt og tilkynnt var 2. september sl. er stefnt að sameiningu á eigna- og sjóðastýringastarfsemi samstæðunnar í eitt dótturfélag. Næstu skref við endurskipulagningu á eignastýringarstarfsemi samstæðunnar verða að færa starfsemi eignastýringar Kviku inn í Júpíter rekstrarfélag hf., dótturfélag bankans. Í kjölfarið er stefnt að því að sameina starfsemi GAMMA og Júpíters.
Komið hefur í ljós að staða tveggja fagfjárfestasjóða í rekstri GAMMA, þ.e. GAMMA: Novus og GAMMA: Anglia, er umtalsvert verri en gert hafði verið ráð fyrir. Hefur skráð gengi þeirra verið lækkað sem því nemur. Lækkun á gengi sjóðanna hefur ekki áhrif á áætlaða afkomu Kviku á árinu 2019. Afkomuspá Kviku var hækkuð í annað sinn á árinu samhliða birtingu hálfsársuppgjörs og er áætlað að afkoma á árinu 2019 verði 2.900 m.kr. fyrir skatta.