Íbúðalánin sjaldan hagstæðari

mbl.is/Kristinn Magnússon

Vegna vaxtalækkana hefur mánaðarleg afborgun af dæmigerðu íbúðaláni lækkað um rúmar 10 þúsund á mánuði frá 2017. Miðað er við 70% lánsfjárhlutfall af 80 fermetra íbúð í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem kostar 38,8 milljónir króna. Lánið er verðtryggt og til 25 ára.

Þetta kemur fram í útreikningum Guðmundar Sigfinnssonar, hagfræðings hjá Íbúðalánasjóði, fyrir Morgunblaðið. Hann segir aðspurður að samhliða betri vaxtakjörum hafi laun á Íslandi hækkað að meðaltali um 16,7% frá byrjun árs 2017. Þá hafi kaupmáttur launa á Íslandi aukist yfir sama tímabil um 8,4%.

Miðað við lægstu vexti

Útreikningar Guðmundar eru hér endurgerðir í töflu. Miðað er við lægstu vexti sem eru í boði á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum.

Eins og sjá má hefur íbúðaverð hækkað mikið frá árinu 2010. Árið 2017 er hér líka valið til samanburðar vegna þess að það var þensluár og af því að vextir hafa síðan lækkað.

Útreikningarnir ná einnig til meðalíbúðar í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Íbúðaverð þar hefur að meðaltali hækkað umfram hækkanir á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2017 en mánaðarleg afborgun af verðtryggðu láni staðið í stað vegna vaxtalækkana.

mbl.is

Við það bætast launahækkanir og eru afborganir því lægri sem hlutfall af ráðstöfunartekjum en árið 2017.

Vextir í Evrópu og Bandaríkjunum eru nú sögulega lágir sem birtist í því að ríkissjóður gat í sumar sem leið sótt sér evrulán á 0,1% vöxtum. Sterk staða þjóðarbúsins hefur sitt að segja í þessu efni en fjármögnun ríkissjóðs hefur áhrif á vaxtaþróun.

Sögulega góðir tímar

Elvar Orri Hreinsson, hagfræðingur hjá Greiningardeild Íslandsbanka, segir sjaldan eða aldrei hafa verið jafn hagstætt að taka íbúðalán.

„Vaxtaumhverfið og aukin samkeppni á markaðnum með innreið lífeyrissjóða gera það að verkum að þetta eru sögulega góðir tímar fyrir neytendur hvað varðar vexti í landinu,“ segir Elvar Orri.

Ólíkt fyrri samdráttarskeiðum sé nú ekki kreppuverðbólga á Íslandi heldur svigrúm til vaxtalækkana.

mbl.is

„Þótt efnahagsumsvif séu að dragast saman er það í mýflugumynd í sögulegu samhengi. Þetta er miklu grynnri efnahagslægð en við eigum að venjast,“ segir Elvar Orri. Þá bendir hann á að ekki sé hægt að bera saman lánamarkaðinn nú og fyrir efnahagshrunið. Í síðustu uppsveiflu hafi verið hægt að taka 100% íbúðalán en nú sé lánshlutfallið hæst 85% hjá almennum lántökum. Næsta kastið séu meiri líkur en minni á enn frekari vaxtalækkunum. Aukið hlutfallslegt vægi óverðtryggðra íbúðalána geti aukið líkur á því að vaxtalækkanir Seðlabankans skili sér í lægri íbúðalánavöxtum.

Spurður hvort lántökukostnaður á Íslandi sé að nálgast hin norrænu löndin segir Elvar Orri vaxtakjörin aðeins einn af mörgum þáttum í heildarkostnaði við að eignast og reka húsnæði. Til dæmis sé húshitunarkostnaður allt að 3,5 sinnum hærri annars staðar á Norðurlöndum.

Það sé betri mælikvarði að miða við hlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum. Á þann mælikvarða sé Ísland samkeppnishæft við hin norrænu löndin.

mbl.is

Ari Skúlason, sérfræðingur hjá Landsbankanum, segir marga þætti hafa áhrif á kaupgetu almennings í húsnæði. Almennt megi þó fullyrða að vaxtaumhverfið á Íslandi sé hagstæðara en áður og horfur á jafnvel enn frekari vaxtalækkunum. Fjármagnskostnaður sé því að lækka. Munurinn á Íslandi og hinum norrænu löndunum sé að minnka hvað þetta varðar.

Nálgast hin norrænu löndin

„Við höfum verið með miklu hærra vaxtastig á Íslandi. Umræður um vaxtastigið hafa þó verið skrítnar. Það er lítið rætt um stærð íslenska fjármálakerfisins og álögur í bankakerfinu. Þegar leiðrétt er fyrir þessum þáttum hafa vaxtakjörin á Íslandi nálgast mikið kjörin annars staðar á Norðurlöndum,“ segir Ari.

Hann segir raunverð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu hafa verið stöðugt í lengri tíma, eða um 60% hærra en 2011. Horfur séu á að nafnverð hækki í takt við verðbólgu á næsta ári þannig að raunverð verði stöðugt.

Ef vextir lækki meira séu meiri líkur á að vextir óverðtryggðra íbúðalána lækki meira en vextir verðtryggðra lána.

Umfjöllunin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK