Ekki gæfuleg fjárfestingarstefna að taka aldrei áhættu

Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. mbl.is/​Hari

Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, segir að umræða um lífeyriskerfið sé oft „víðs fjarri staðreyndum“ og að „fjaðrafokið“ vegna taps á sumum fjárfestingum sé alveg slitið úr samhengi við þá staðreynd að þegar tekin sé áhætta verði stundum tap og stundum ávinningur.

„Lykilatriði er auðvitað að velja vel svo að sem oftast verði ávinningur (!) en það er ekki gæfuleg fjárfestingarstefna að taka aldrei áhættu. Þess vegna er eðlilegt, raunar óhjákvæmilegt, að sumar fjárfestingar sjóðanna skili tapi“ skrifar Gylfi á Facebook-síðu sína, en fjaðrafokið sem hann vísar til er væntanlega sú umræða sem hefur átt sér stað í samfélaginu frá því að fregnir bárust af því að tveir sjóðir Gamma, GAMMA: Novus og GAMMA: Anglia, stæðu höllum fæti.

„Sumar slíkra fjárfestinga má vitaskuld gagnrýna en það á að gera á grundvelli þess sem menn máttu vita þegar þær voru gerðar, ekki þess sem er vitað löngu síðar,“ segir Gylfi og bendir á að líklega hafi fjárfestingar lífeyrissjóðanna aldrei skilað meiri ávöxtun í krónum talið en það sem af er þessu ári.

„Eignir sjóðanna (þ.e. sjóðfélaga!) jukust um 550 milljarða fyrstu átta mánuði ársins. Þar af er ávöxtun á að giska 480 milljarðar, hitt eru iðgjöld umfram lífeyrisgreiðslur,“ skrifar Gylfi, sem segir þó rétt að anda í gegnum nefið þegar svona tölur birtist, þar sem það sé langtímaávöxtunin, en ekki skammtímasveiflur, sem öllu skipti og að horfur um hana séu ekkert sérstaklega bjartar, því miður.

„… en það má alveg gleðjast í smástund fyrir hönd lífeyrisþega í nútíð og framtíð,“ skrifar Gylfi.



mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK