Tryggingar ferðaskrifstofunnar Gaman-ferða dugðu fyrir öllum samþykktum kröfum í félagið eftir að það fór í rekstrarstöðvun í apríl, skömmu eftir að WOW air fór í þrot.Alls bárust 1.044 kröfur vegna rekstrarstöðvunarinnar, en 980 þeirra voru samþykktar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu, en eftir að Gaman-ferðir skiluðu inn ferðaskrifstofuleyfi sínu tók stofnunin við því að reyna að nýta eins og frekast var kostur þá þjónustu sem hafði verið bókuð og greitt fyrir eða inn á. Þannig var fjölmörgum tilfellum hægt að nýta hluta pakkaferðar, t.d. tónleikamiða, hótelgistinu eða flug.
Byrjað verður að greiða samþykktar kröfur á næstunni.
Fram kemur í tilkynningunni að markmiðið hafi verið að nýta sem best tryggingafé ferðaskrifstofunnar og ekki kom til þess að skerða þyrfti greiðslur til þeirra sem áttu réttmætar kröfur. Heildarfjárhæð krafna voru tæpar 203 milljónir.