Neikvæð áhrif af aflagðri starfsemi og eignum til sölu á afkomu Arion banka á þriðja ársfjórðungi 2019 mun nema um 3 milljörðum króna, að teknu tilliti til skatta, samanborið við 715 milljóna króna tap á öðrum ársfjórðungi.
Aflögð starfsemi til sölu nær til eigna eða félaga sem bankinn hyggst selja á næstu mánuðum og flokkast í rekstrarreikningi neðan við hagnað af áframhaldandi starfsemi, að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum.
Fram kemur að aukið tap á fjórðungnum skýrist einkum af þremur þáttum:
- Vegna erfiðra markaðsaðstæðna, m.a. lágs sílikonverðs á heimsmarkaði, niðurfærir Arion banki eignir Stakksbergs um 1,5 milljarða króna. Stakksberg er eignarhaldsfélag um sílikonverksmiðju í Helguvík sem er í söluferli. Unnið hefur verið að undirbúningi sölu verksmiðjunnar m.a. með umhverfismati og nýjum samningum við orkufyrirtæki.
- Vegna erfiðleika í ferðaþjónustu telur Arion banki ástæðu til að niðurfæra eignir TravelCo um 600 milljónir króna. Frá yfirtöku bankans á rekstri ferðaskrifstofanna sem heyra undir TravelCo hefur undirbúningi og söluferli miðað áfram og stefnt er að sölu þeirra á komandi mánuðum.
- Auknu tapi í starfsemi Valitor sem er einkum tilkomið vegna kostnaðar við fækkun starfsfólks og skipulagsbreytinga í lok september. Kostnaður við aðgerðirnar nam rúmlega 200 milljónum króna. Áhrif Valitor á aflagða starfsemi og eignir til sölu nema samtals um 900 milljónum króna.
Þá segir, að fjárhagsleg markmið bankans til næstu ára, m.a. um arðsemi og þróun eigin fjár, haldist óbreytt.
Afkoma bankans fyrir þriðja ársfjórðung verður birt 30. október 2019.