Vextir á íbúðalánum hafa lækkað um 0,5 til 1,7 prósent frá því í maí í kjölfar vaxtalækkana Seðlabankans um 1,25%. Hins vegar hefur dregið úr nýjum íbúðalánum bæði frá fyrri mánuði og frá sama mánuði árinu áður. Þetta er meðal þess sem fram kemur í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs fyrir október.
Mikill munur er þó á samsetningu nýrra lána en ný óverðtryggð lán hafa aukist um 41% á milli ára meðan verðtryggð lán hafa dregist saman um 51%.
Í skýrslunni kemur einnig fram að árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 2,4% í ágúst samkvæmt vísitölu paraðra íbúðaviðskipta.
Árshækkun íbúðaverðs í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins nam 6,3% og annars staðar á landsbyggðinni um 3%. Meðalsölutími íbúða hefur haldist nokkuð stöðugur á árinu en meðalsölutími nýrra íbúða lækkaði aftur eftir að hafa hækkað í maí síðastliðnum.
Talsverður munur er á þróun leiguverðs eftir landssvæðum. Árshækkun á leiguverði mældist 5,2% á höfuðborgarsvæðinu í ágúst á sama tíma og almennt verðlag hækkaði um 3%. Á Suðurnesjum lækkaði leiguverð hins vegar á milli ára, eftir mjög kröftugar hækkanir árið þar á undan. Leiguverð á Suðurlandi hefur haldið áfram að hækka verulega eða um 17,2%, en á Austurlandi hefur það lækkað um 14% frá sama tíma árið 2018.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.