Þýska félagið PCC SE, sem á 86,5% í kísilverksmiðjunni PCC BakkiSilicon, mun leggja félaginu til um fimm milljarða í formi hluthafaláns sem innspýtingu til að tryggja rekstrargrundvöll verksmiðjunnar. Þetta segir Ómar Örn Tryggvason, sem er einn forsvarsmanna Bakkastakks, eiganda 13,5% hlutar í PCC BakkiSilicon, á móti PCC SE.
Í síðasta mánuði var greint frá því að eigendur félagsins leituðu leiða til að sækja fimm milljarða. Bakkastakkur er í eigu á annars tugs lífeyrissjóða ásamt Íslandsbanka. Fréttablaðið greindi frá því í morgun og lífeyrissjóðirnir myndu ekki leggja aukið fé í þessa fjárfestingu, en auk hlutafjár hafa lífeyrissjóðirnir Gildi, Stapi og Birta, ásamt Íslandsbanka, lagt fram fé í formi breytilegs skuldabréf upp á um 7,8 milljarða. Samtals er fjárfesting innlendra aðilanna um 10 milljarðar.
Ómar segir að fjárhæðin sem PCC SE muni leggja til sé ekki enn alveg niðurnegld og enn sé verið að skoða hvort Bakkastakkur muni koma að fjármögnuninni. Munu eigendur félagsins funda á næstunni og telur Ómar að niðurstaða liggi fyrir áður en mánuðurinn er úti.