„Við höfum farið mjög vandlega yfir þetta mál og eigum ekki endilega von á að það verði mikil skammtímaáhrif af því ef Ísland lendir á gráum lista FAFT,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Hann segir að Seðlabankinn hafi farið yfir viðbúnaðaráætlanir sínar til að vera viðbúinn komi til þess að Ísland lendi á listanum og það valdi einhverjum skammtímaáhrifum. Borgun og Valitor hafa hvort í sínu lagi látið helstu samstarfsaðila sína erlendis vita að mögulega lendi Ísland á gráum lista FAFT.
„Við höfum verið í sambandi við helstu erlenda samstarfsaðila okkar, kortasamtök og banka, og höfum útskýrt stöðuna. Við trúum því að þessir aðilar muni taka á málunum af skynsemi,“ sagði Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitors. Hann segir að íslensku fjármálafyrirtækin hafi unnið ötullega að því árum saman að byggja upp varnir gegn peningaþvætti. „Það skiptir kortafyrirtækin miklu máli að hafa þessa hluti í góðu lagi,“ segir Viðar í umfjöllun Morgunblaðsins um mál þetta í dag.
„Til skemmri tíma litið vonum við að þetta hafi lítil sem engin áhrif,“ sagði Sæmundur Sæmundsson, forstjóri Borgunar. Hann segir að þau hafi getað sagt viðskiptabönkum sínum að þau atriði sem út af standi hér hafi ekkert með íslenska fjármálakerfið að gera, hvorki banka, færsluhirða, kortaútgefendur né kerfin sjálf. Sæmundur segir að það verði slæmt fyrir orðspor Íslands lendi það á gráa listanum. „Ég hef mestar áhyggjur af nýjum og minni aðilum sem þurfa að koma sér upp bankasamskiptum erlendis. Til „skemmri tíma“ er þetta kannski minna mál fyrir okkur sem höfum átt áratuga samskipti við erlenda banka.“