Ekki augljóst hvernig eigi að selja Íslandsbanka

Bjarni Benediktsson sagði í ræðu sinni að hann teldi „gríðarlega …
Bjarni Benediktsson sagði í ræðu sinni að hann teldi „gríðarlega mikil tækifæri í að breyta eignarhaldinu“ á Íslandsbanka. Hann þvertók þó fyrir það að það væri unnið að því með einhverjum asa. mbl.is/Árni Sæberg

Fjórar helstu áherslurnar sem ríkið hefur við endurskoðun á eigendastefnu sinni í fjármálafyrirtækjum eru að ríkið verði áfram leiðandi fjárfestir í Landsbankanum til langframa, að tryggt verði að einn kerfislega mikilvægur banki eigi alltaf höfuðstöðvar á Íslandi, að stuðlað verði að stöðugleika í fjármálakerfinu og nauðsynlegir innviðir þess tryggðir og að allir landsmenn eigi kost á að áreiðanlegri og vandaðri og traustri fjármálaþjónustu.

Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í sérstakri umræðu um íslenskt bankakerfi og sölu á hlutum ríkisins í bönkunum á Alþingi í dag, en Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingar hóf umræðuna. Bjarni sagði í ræðu sinni að hann teldi „gríðarlega mikil tækifæri í að breyta eignarhaldinu“ á Íslandsbanka, sem hefur verið í eigu ríkisins frá árinu 2016.

Bjarni sagði þó ekki augljóst hvernig ætti að „vinda ofan af eignarhaldinu“ – samtal þyrfti að eiga sér stað við Bankasýslu ríkisins um hvort skráningarferli, útboð eða aðrar leiðir séu heppilegar til þess að ná markmiðum ríkisins.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf umræðuna.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf umræðuna. mbl.is/Eggert

Áður hafði Bjarni skotið aðeins á Oddnýju, en hún sagði í upphafi umræðunnar að hún teldi ekki tímabært að undirbúa sölu bankanna á þessum tímapunkti og sagði skoðanakannanir sýna að almenningur væri jákvæður fyrir því að ríkið reki banka. Hún sagði Bjarna jafnframt fara fram með „asa“ í því ferli að koma bönkunum úr eigu ríkisins. Hún lagði áherslu á að fjárfestingabankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi bankanna yrði aðskilin á meðan að ríkið færi með ráðandi hluti í tveimur af stóru bönkunum.

Benti Bjarni á að árið 2012 að Oddný, er hún sjálf var fjármálaráðherra, hefði hún mælt fyrir frumvarpi um lög um sölu ríkisins á eignarhlut í fjármálafyrirtækjum.

„Alveg skýr vilji háttvirts þingmanns birtist fyrir sex árum síðan, að fara að vinna í því að losa um eignarhald ríkisins á bönkum sem varð til vegna hrunsins. Þess vegna skýtur það dálítið skökku við þegar sami þingmaður, háttvirtur, kemur hérna upp núna og segir fjármálaráðherra vera í einhverjum miklum asa,“ sagði Bjarni.

Í ræðu sinni kom Bjarni einnig inn á að á næstunni yrði kynnt stjórnarfrumvarp um að takmarka fjárfestingarbankastarfsemi, auk þess sem unnið hefði verið að innleiðingu Evróputilskipunar um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja, sem ætlað er að auka úrræði stjórnvalda lendi fjármálafyrirtæki í áföllum og takmarka tjón samfélagsins af þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK