Mikil sóknarfæri fyrir Marel í Asíu

Marel sér sóknarfæri í Asíu, að sögn fjármálastjóra fyrirtækisins. Mynd …
Marel sér sóknarfæri í Asíu, að sögn fjármálastjóra fyrirtækisins. Mynd frá framleiðslustöð Marel í Garðabæ. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Tekjur Marel námu yfir einum milljarði evra árið 2018 og við ætlum að vaxa í þrjá milljarða á tímabilinu 2017-2026, sem samsvarar um 12% vexti á ári að meðaltali. Helmingur þess er með nýsköpun og innri vexti og hinn helmingurinn með kaupum á fyrirtækjum. Stefna Marel er að bjóða upp á hátæknilausnir fyrir okkar viðskiptavini í kjúklinga-, kjöt- og fiskiðnaði og við vinnum markvisst að því að uppfylla þá stefnu, meðal annars með því að fjárfesta um 6% tekna árlega í vöruþróun.“

Þetta segir Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marels, í samtali við mbl.is. Fyrirtækið hagnaðist um 33,4 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi samkvæmt uppgjöri þess sem birt var í dag. Þar kom meðal annars fram að fyrirtækið hefði keypt helmingshlut í íslenska hátæknifiskvinnsluframleiðandanum Curio, auk þess að eiga kauprétt að eftirstandandi 50% eftir fjögur ár, og enn fremur keypt ástralska hugbúnaðarfyrirtækið Cedar Creek Company sem sérhæfir sig í lausnum fyrir kjöt-, fisk- og kjúklingavinnslu.

„Við getum uppfyllt vaxtarmarkmið okkar með öflugu nýsköpunarstarfi og stefnumiðuðum kaupum á fyrirtækjum, en slík kaup stytta okkur leiðina. Í samræmi við þá stefnu vorum við að tilkynna um kaup á tveimur fyrirtækjum sem passa vel við okkar starfsemi, stefnu og vöruframboð,“ segir Linda enn fremur.

Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marel, segir ánægju innan fyrirtækisins með uppgjörið …
Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marel, segir ánægju innan fyrirtækisins með uppgjörið vegna þriðja ársfjórðungs sem kynnt var í dag. Ljósmynd/Marel

„Við erum alþjóðlegt fyrirtæki með yfir 6.000 starfsmenn í yfir 30 löndum og sterk markaðsstaða sem við höfum byggt markvisst upp í gegnum árin með fjárfestingu í alþjóðlegu sölu- og þjónustuneti okkar gerir okkur áhugaverð í augum þeirra fyrirtækja sem við erum að kaupa eða erum í samræðum við. Oft er komið að kynslóðaskiptum hjá slíkum fyrirtækjum og þau vantar þá stafrænu tækni sem Marel býr yfir og samanlagt ýta þessir þættir enn frekar undir vilja til að þau sameini krafta sína við Marel.“

Hik í Evrópu vegna viðskiptahafta

Spurð hvar sóknarfæri Marel séu í heiminum segir Linda að þau séu ekki síst í Asíu. „Heilt yfir eru mikil tækifæri til vaxtar og markaðssóknar í okkar iðnaði. Í Asíu, þá sérstaklega í Kína, eru gríðarleg sóknarfæri, bæði í nýjum verkefnum þar sem við hönnum og þróum heildarkerfi í samstarfi við viðskiptavini fyrir nýjar vinnslur en einnig í sölu á einstökum tækjum og þjónustu. Í Evrópu er örlítið hik á markaðinum, sem orsakast að hluta til vegna viðskiptahafta. Engu að síður eru þar einnig mikil sóknarfæri, til dæmis með núverandi viðskiptavinum sem vaxa með okkur og fjárfesta í lausnum til fullvinnslu á kjúklingakjöti og fiskvörum til neytenda.“

„Á heimsvísu er gríðarleg þörf og eftirspurn eftir aukinni sjálfvirkni við matvælavinnslu. Nýopnuð kjúklingavinnsla Lincoln Premium Poultry, sem framleiðir vörur fyrir Costco í Bandaríkjum, er gott dæmi um áframhaldandi tækniþróun og fjárfestingu í sjálfvirkum lausnum. Vinnslan er fullbúin hátæknikerfum frá Marel sem tryggja rekjanleika í gegnum alla vinnsluna, matvælaöryggi og hámarksafköst en afkastageta vinnslunnar er 2 milljónir kjúklinga á viku,“ segir Linda.

Framtíðin er björt hjá Marel að sögn Lindu og ánægja með uppgjörið sem kynnt var í dag.

„Þetta var góður ársfjórðungur og Marel sem hefur verið að bæta rekstrarniðurstöðu sína talsvert síðustu ár, þannig að við erum afar stolt af þessari niðurstöðu og höldum markvisst áfram við að umbylta því hvernig matvæli eru unnin með áherslu á, hagkvæmni, matvælaöryggi, gæði, rekjanleika og sjálfbærni að leiðarljósi.“

mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK