Skilur ekki hvernig þetta gat gerst allt í einu

„Góðu frétt­irn­ar eru þær að vá­trygg­ing­a­rekst­ur­inn gekk vel,“ sagði Sig­urður …
„Góðu frétt­irn­ar eru þær að vá­trygg­ing­a­rekst­ur­inn gekk vel,“ sagði Sig­urður Viðarsson forstjóri TM á upp­gjörs­fund­i félagsins í dag. Fjárfestingar félagsins gengu miður vel á þriðja ársfjórðungi. mbl.is/​Hari

„Ég veit ekki hvort nokkur viti almennilega hvað nákvæmlega gerðist, við höfum bara fengið þau svör sem hafa verið birt í fjölmiðlum og maður á svolítið erfitt með að ná utan um það hvernig þetta getur gerst allt í einu án þess að nokkur haft kveikt á því,“ segir Sigurður Viðarsson forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar í samtali við mbl.is, spurður út í það hvort TM hafi fengið einhverjar frekari skýringar á því hvað varð þess valdandi að eigið fé fjárfestingasjóðsins GAMMA: Novus reyndist hafa þurrkast úr er sjóðurinn var endurmetinn í sumar eftir kaup Kviku banka á GAMMA.

TM varð fyrir rúmlega 300 milljóna króna fjárhagstjóni vegna fjárfestingar sinnar í sjóðnum og það var á meðal þess sem Sigurður tjáði fundargestum á uppgjörsfundi félagsins síðdegis í dag. Tap félagsins var 251 milljón króna þriðja ársfjórðungi, sem skýrist af slæmri afkomu á fjárfestingarhlið starfseminnar og þar á fjárfestingin í Novus-sjóðnum langstærstan þátt.

„Góðu fréttirnar eru þær að vátryggingareksturinn gekk vel,“ sagði Sigurður á uppgjörsfundinum, er hann greindi frá því að framlegð vátryggingarekstursins hefði verið 217 milljónir á þriðja ársfjórðungi og almennt stefndi kjarnastarfsemin í góða átt þrátt fyrir að fjárfestingar hefðu ekki skilað góðri afkomu á þessum ársfjórðungi, eftir að hafa skilað miklum hagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins. Heilt yfir hefur TM hagnast um rúmlega 1,5 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins.

Sigurður sá sig knúinn til þess – er hann var að fara yfir fjárfestingar TM í hinum ýmsu sjóðum og bréfum – að taka sérstaklega fram fyrir viðstöddum að þeir tveir sjóðir GAMMA sem félagið á nú í væru eðlisólíkir Novus-sjóðnum.

Hann sagði í samtali við blaðamann eftir fundinn að TM bíði nú eins og aðrir eftir niðurstöðu úr þeirri könnun sem sett hefur verið af stað vegna starfsemi Novus-sjóðsins og bætti við að boðað hefði verið til upplýsingafundar fyrir hagsmunaaðila á föstudaginn.

Mikil tækifæri í kaupum á Lykli

Fyrr í mánuðinum var greint frá því að TM hefði gengið frá kaupum á fjármögnunarfyrirtækinu Lykli. Sigurður tjáði gestum uppgjörsfundarins að í kaupunum, sem bíða samþykktar samkeppnisyfirvalda, fælist tækifæri til þess að stækka bæði félögin og að um yrði að ræða gríðarlegt framfaraskref fyrir TM og hluthafa þess. Sagði hann stefnuna að auka hagnað á hvern hlut í TM um 20-30% á komandi árum.

Tækifærin, að sögn Sigurðar, felast í ýmsum samlegðaráhrifum fyrirtækjanna tveggja og því að nýta þau til þess að búa til heildarlausnir fyrir viðskiptavini. „Við teljum líka að tryggingafélagið geti hjálpað fjármögnunarfélaginu á mörgum sviðum, varðandi fjárstýringu, fjármögnun og annað,“ ssegir Sigurður, en stefnan er TM – sem skráð er í kauphöll – verði móðurfélag nýja félagsins, eignarhaldsfélag sem eigi annars vegar tryggingafélag og hins vegar fjárfestingafélag.

Höfuðstöðvar TM í Síðumúla.
Höfuðstöðvar TM í Síðumúla. mbl.is/Arnþór

Spurður hvort hann telji að framtíð tryggingafélaga sé á þessa leið, að fara í auknum mæli út í aðra starfsemi til hliðar, segir Sigurður að hann telji að svo sé.

„Ég held að iðgjöld séu almennt frekar á niðurleið í heildina talið. Með allri þessari sjálfvirknivæðingu, sjálfkeyrandi bílum og öðru, þá minnka tjón sem gerir það að verkum að það verður minni þörf fyrir tryggingar, tryggingafélögin. Þannig að ég held að til framtíðar þurfi tryggingafélög að horfa á sína tekjustrauma á aðeins breiðari grunni,“ segir forstjórinn.

Störf breytast með tækniframförum

Blaðamaður spurði hann einnig út í þau áhrif sem aukin sjálfvirknivæðing hefði á starfsmannahald. Má búast við því að starfsmönnum í tryggingastarfsemi fækki á komandi árum?

„Það er engin spurning að það eru tækifæri í sjálfvirknivæðingu, en það sem gerist í raun og veru er að störfin breytast. Fólk sem var á færibandinu áður er komið út í þróun. Við erum með gott dæmi hér, þar sem tjón voru afgreidd hjá starfsmanni árum en í gegnum app í dag og nú er sá starfsmaður meira að hugsa um þróun á appinu en að gera upp tjón. Störfin breytast og með tímanum kannski fækkar þeim eitthvað en mér hefur sýnst hingað til að þau hafi frekar færst úr framlínustarfsmönnum yfir í hugbúnaðargeirann,“ segir Sigurður að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK