Costco opnar tímamótaverksmiðju í samstarfi við Marel

RoboBatcher er eitt af mörgum kerfum frá Marel í verksmiðju …
RoboBatcher er eitt af mörgum kerfum frá Marel í verksmiðju Lincoln Premium Poultry og er líka dæmi um sjálfvirka lausn við kjúklingavinnslu. Ljósmynd/Marel

Costco hef­ur ný­lega opnað risa­stóra há­tæknikjúk­linga­verk­smiðju í Nebraska í Banda­ríkj­un­um, en verk­smiðjan er jafn­framt stærsta ein­staka verk­efni Mar­el til þessa og er vinnslan fullbúin hátæknilausnum og hugbúnaði frá Marel sem ná yfir allt vinnsluferlið, frá lifandi fugli til neysluvöru.

Hátæknilausnir Marel tryggja rekjanleika í gegnum alla vinnsluna, matvælaöryggi og hámarksafköst en afkastageta vinnslunnar er tvær milljónir kjúklinga á viku. Allar afurðir vinnslunnar verða seldar í verslunum Costco í Bandaríkjunum sem jafnframt er eigandi vinnslunnar og Lincoln Premium Poultry (LPP).

Í árs­hluta­upp­gjör­skynn­ingu í dag sagði Árni Odd­ur Þórðar­son, for­stjóri Mar­el, frá verk­smiðjunni og að heild­ar­fjárfest­ing í kring­um hana hefði verið einn millj­arður Banda­ríkja­dala.

Í vinnslunni, sem er ein sú fullkomnasta í heimi og yfir  þrjátíu þúsund fermetrar að stærð, er að finna heildarlausnir frá Marel sem ná yfir allt vinnsluferlið frá lifandi fugli til fullunninnar neysluvöru. Í vinnslunni má m.a. finna þrjár samsíða vinnslulínur sem geta hver um sig afkastað allt að 8.400 kjúklinga á klukkustund. Lincoln Premium Poultry getur því framleitt neytendavöru úr tveimur milljónum kjúklinga á viku. Vinnslan mun afhenda fyrsta flokks afurðir, þar á meðal hina vinsælu heilgrilluðu rotisserie kjúklinga  sem seldir eru í verslunum Costco.

Stærstur hluti tækjabúnaðar í verksmiðjunni kemur frá Marel.
Stærstur hluti tækjabúnaðar í verksmiðjunni kemur frá Marel. Ljósmynd/Marel

Með nýjustu tækni, þ.m.t  læra úrbeiningarkerfi, AMF-i bringuúrbeiningarvélum og fyrsta flokks kælikerfi, mun LPP auka gæði og nýtingu ásamt því að draga úr sóun í framleiðslu sinni og skila þannig mikilvægu framlagi til sjálfbærari kjúklingavinnslu. Í dreifingarferlinu tryggja SmartWeigher snjallvogirnar og IRIS myndgreining afar nákvæma vigtun á miklum hraða og hámarksnýtingu. SensorX-beinaleitarkerfið tryggir matvælaöryggi og ATLAS og CAS SmoothFlow kerfi tryggja að dýravelferð sé með því besta sem gerist í greininni.

Innova vinnsluhugbúnaður Marel tengir öll tæki og ferli vinnslunnar og gefur stjórnendum þannig fulla yfirsýn til að bæði fylgjast með í rauntíma og stjórna og hámarka framleiðsluna. Innova gerir LPP kleift að tryggja rekjanleika vörunnar, allt frá því hráefnið berst vinnslustöðinni, í gegnum vinnsluferlið og þar til það er tilbúið til neyslu. Þannig er því hægt að tryggja rekjanleika vinnslunnar frá býli til neytenda.

Verk­smiðjan sjálf er um 33.500 fer­metr­ar að stærð.

Fram kom í kynn­ingu Árna að verk­smiðjan sé með þeim full­komn­ustu í heim­in­um og verði notuð sem kynn­ing fyr­ir getu Mar­els til að fram­leiða stór­ar fram­leiðslu­lín­ur. Þá sagði hann að verk­smiðjan muni hjálpa Costco við að bjóða upp á heil­an kjúk­ling á 4,99 dali, sem lengi hef­ur verið ein af þekkt­ari vör­um versl­un­ar­keðjunn­ar.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK