Costco hefur nýlega opnað risastóra hátæknikjúklingaverksmiðju í Nebraska í Bandaríkjunum, en verksmiðjan er jafnframt stærsta einstaka verkefni Marel til þessa og er vinnslan fullbúin hátæknilausnum og hugbúnaði frá Marel sem ná yfir allt vinnsluferlið, frá lifandi fugli til neysluvöru.
Hátæknilausnir Marel tryggja rekjanleika í gegnum alla vinnsluna, matvælaöryggi og hámarksafköst en afkastageta vinnslunnar er tvær milljónir kjúklinga á viku. Allar afurðir vinnslunnar verða seldar í verslunum Costco í Bandaríkjunum sem jafnframt er eigandi vinnslunnar og Lincoln Premium Poultry (LPP).
Í árshlutauppgjörskynningu í dag sagði Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, frá verksmiðjunni og að heildarfjárfesting í kringum hana hefði verið einn milljarður Bandaríkjadala.
Í vinnslunni, sem er ein sú fullkomnasta í heimi og yfir þrjátíu þúsund fermetrar að stærð, er að finna heildarlausnir frá Marel sem ná yfir allt vinnsluferlið frá lifandi fugli til fullunninnar neysluvöru. Í vinnslunni má m.a. finna þrjár samsíða vinnslulínur sem geta hver um sig afkastað allt að 8.400 kjúklinga á klukkustund. Lincoln Premium Poultry getur því framleitt neytendavöru úr tveimur milljónum kjúklinga á viku. Vinnslan mun afhenda fyrsta flokks afurðir, þar á meðal hina vinsælu heilgrilluðu rotisserie kjúklinga sem seldir eru í verslunum Costco.
Með nýjustu tækni, þ.m.t læra úrbeiningarkerfi, AMF-i bringuúrbeiningarvélum og fyrsta flokks kælikerfi, mun LPP auka gæði og nýtingu ásamt því að draga úr sóun í framleiðslu sinni og skila þannig mikilvægu framlagi til sjálfbærari kjúklingavinnslu. Í dreifingarferlinu tryggja SmartWeigher snjallvogirnar og IRIS myndgreining afar nákvæma vigtun á miklum hraða og hámarksnýtingu. SensorX-beinaleitarkerfið tryggir matvælaöryggi og ATLAS og CAS SmoothFlow kerfi tryggja að dýravelferð sé með því besta sem gerist í greininni.
Innova vinnsluhugbúnaður Marel tengir öll tæki og ferli vinnslunnar og gefur stjórnendum þannig fulla yfirsýn til að bæði fylgjast með í rauntíma og stjórna og hámarka framleiðsluna. Innova gerir LPP kleift að tryggja rekjanleika vörunnar, allt frá því hráefnið berst vinnslustöðinni, í gegnum vinnsluferlið og þar til það er tilbúið til neyslu. Þannig er því hægt að tryggja rekjanleika vinnslunnar frá býli til neytenda.
Verksmiðjan sjálf er um 33.500 fermetrar að stærð.
Fram kom í kynningu Árna að verksmiðjan sé með þeim fullkomnustu í heiminum og verði notuð sem kynning fyrir getu Marels til að framleiða stórar framleiðslulínur. Þá sagði hann að verksmiðjan muni hjálpa Costco við að bjóða upp á heilan kjúkling á 4,99 dali, sem lengi hefur verið ein af þekktari vörum verslunarkeðjunnar.
Fréttin hefur verið uppfærð