Milljarða hagnaður Haga

Hagnaður Haga á síðasta ársfjórðungi nam um einum milljarði.
Hagnaður Haga á síðasta ársfjórðungi nam um einum milljarði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður Haga á síðasta ársfjórðungi nam 1.056 milljónum og jókst úr 708 milljónum á sama tíma í fyrra. Vörusala var 30,9 milljarðar, samanborið við 19,1 milljarð á sama tíma í fyrra. Skýrist það að stærstum hluta af kaupum Haga á Olís í lok síðasta árs.

Uppgjörstímabil Haga er ólíkt flestum öðrum félögum á Íslandi, en það hefst 1. mars og lýkur í lok febrúar. Því var einnig um að ræða lok fyrsta árshluta í því uppgjöri sem birt var í dag.

Hagnaður félagsins á fyrsta árshluta, sem nær frá mars til loka ágúst, nam 1,7 milljörðum, en var á sama tíma í fyrra 1,4 milljarðar. Nam hagnaðurinn nú 2,9% af veltu, en var 3,8% af veltu í fyrra. Var vörusala 59,5 milljarðar í ár, en 37,7 milljarðar á sama tíma í fyrra. Söluaukningin er því 57,7% og skýrist sem fyrr segir af áhrifum Olís. Án áhrifa Olís er söluaukning félagsins 3,9% en söluaukning er í báðum matvörukeðjum félagsins, Bónus og Hagkaup, þrátt fyrir fækkun verslana, en á sama tíma hækkaði vísitala án húsnæðis um 3,23%.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 4.523 milljónum, en var 2.376 milljónir á fyrri árshluta í fyrra.

Fram kemur í tilkynningu með uppgjörinu að áætluð samlegðaráhrif af samruna Haga og Olís séu um 600 milljónir og áætlaður kostnaður við að ná fram þeim árangri nemur eins árs samlegð. . Félagið áætlar að 514 milljónum króna hafi þegar verið náð og byrja áhrifin að mestu leyti að telja frá 1. október 2019. Fjárfestingar við að ná þeirri samlegð fram eru 273 milljónir króna.

Í tilkynningunni segir að fyrri helmingur rekstrarársins, sem klárast sem fyrr segir í lok febrúar, hafi staðist væntingar og verið í takt við áætlanir félagsins. Gerir félagið ráð fyrir að EBITDA afkoma verði 6.650-7.100 milljónir á rekstrarárinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka