Hagnaður samstæðu Arion banka á þriðja ársfjórðungi 2019 nam 800 milljónum króna samanborið við 1,1 milljarð króna á sama tímabili 2018. Arðsemi eigin fjár var 1,6% á þriðja ársfjórðungi 2019 samanborið við 2,3% á sama tímabili árið 2018. Þetta kemur fram í árshlutareikning bankans á þriðja ársfjórðungi.
Heildareignir námu 1.213 milljörðum króna í lok september 2019 samanborið við 1.164 milljarða króna í árslok 2018. Lán til viðskiptavina lækkuðu um 21,3 milljarða króna eða 3% og er það í samræmi við auknar áherslur bankans á arðsemi fremur en lánavöxt. Eigið fé nam 196 milljörðum króna, samanborið við 201 milljarð króna í árslok 2018.
„Áfram eru jákvæð merki í reglulegri starfsemi Arion banka. Má þar nefna að vaxtatekjur og tekjur af tryggingastarfsemi vaxa á milli ára og arðsemi af áframhaldandi starfsemi bankans á þriðja ársfjórðungi var 8,5%. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun er afkoma Arion banka á ársfjórðungnum undir markmiðum sökum þátta sem bankinn hefur þegar gert grein fyrir. Hér er einkum um að ræða umtalsverðar niðurfærslur á félögum sem bankinn er með í söluferli, áframhaldandi fjárfesting í alþjóðlegri starfsemi Valitor og gjaldfærsla kostnaðar vegna skipulagsbreytinga,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, í tilkynningu.
Hagnaður af áframhaldandi starfsemi nam 3.801 milljón króna á þriðja ársfjórðungi og 8.849 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum 2019, samanborið við 1.351 milljón króna á þriðja ársfjórðungi 2018 og 6.805 milljónir króna fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2018. Arðsemi eigin fjár af áframhaldandi starfsemi var um 8,5% á þriðja ársfjórðungi og 6,5% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019. Dótturfélögin Valitor Holding, Stakksberg og TravelCo eru skilgreind sem eignir til sölu.