„Vegna umfjöllunar Gagnaveitu Reykjavíkur um niðurtöku á búnaði og ásakanir um meint brot telur Míla nauðsynlegt að leiðrétta rangfærslur og blekkingar GR,“ segir í tilkynningu á vefsíðu Mílu. Þar kemur fram að Míla muni senda formlega kvörtun til Neytendastofu.
Greint var frá því í gær að Gagnaveita Reykjavíkur, samkeppnisaðili Mílu, hefði hafið söfnun á upplýsingum um heimili þar sem talið er að ljósleiðaraþráður Gagnaveitunnar hafi verið ótengdur ólöglega af Mílu í kjölfar ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS).
Gagnaveitan lýsti því yfir að stofnunin ætli nú safna gögnum og leita að fleiri tilfellum þar sem mögulegt brot hefur átt sér stað.
Í svari frá Mílu vegna yfirlýsingar GR segir að í ákvörðun PFS, sem hefur verið staðfest af úrskurðarnefnd fjarskipta og póstmála, hafi GR gengið frá þúsundum tenginga í húsum á höfuðborgarsvæðinu með ólögmætum hætti.
„Undanfarin ár hefur Míla verið að greiða úr þessum ólöglegu tengingum GR. Í þeirri vinnu hefur mat tæknimanna Mílu um hvernig skal standa að verki í örfá skipti ekki farið saman við mat PFS.“
„Þau mál sem PFS hefur úrskurðað um snúast um tengingar við inntak ljósleiðara í kjallara fjölbýlishúsa. Þær niðurstöður hefur GR nú tekið og tengt í tilkynningu sinni til fjölmiðla við umfjöllun um ljósleiðarabox sem eru inni í íbúð hjá notendum. Hið rétta er þó að engin mál sem varða box inni í íbúðum hafa verið til umfjöllunar hjá PFS,“ segir í yfirlýsingu Mílu.
Þá kemur þar fram að blekking GR felist í því að láta notendur halda að ákvörðun PFS, sem fjallar um frágang í inntaki í kjallara, eigi líka við um box inni í íbúð notenda.
„Þessi vísvitandi rangfærsla er til þess fallin að kasta rýrð á vörumerki Mílu sem samkeppnisaðila GR og Míla mun senda formlega kvörtun til Neytendastofu.“
Í yfirlýsingu Mílu kemur einnig fram að Neytendastofa hafi í þrígang frá árinu 2014 úrskurðað GR brotlegt gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu vegna rangfærslna félagsins um samkeppnisaðila.