Mega fela tekjur fyrir fjölmiðlum

Ilkka Paananen, stofnandi og forstjóri snjallleikjafyrirtækisins Supercell, er tekjuhæsti Finninn.
Ilkka Paananen, stofnandi og forstjóri snjallleikjafyrirtækisins Supercell, er tekjuhæsti Finninn. Ljósmynd/Twitter

Ágreiningur er orðið sem lýsir best umræðunni um tekjur og skatta í Finnlandi í dag því í stað þess að upplýsingar um tekjur þeirra tekjuhæstu séu birtar opinberlega líkt og hefð er fyrir hafa þeir tekjuhæstu heimild til þess að losna undan kastljósi fjölmiðla.

Hingað til hefur listi yfir þá einstaklinga sem eru með 100 þúsund evrur eða meira í tekjur verið sendur til fjölmiðla til birtingar. Í Finnlandi hefur dagurinn oft verið nefndur þjóðardagur öfundar. Hefð er fyrir þessu gagnsæi þegar kemur að tekjum í Finnlandi og upplýsingar um tekjur hafa verið birtar árlega í fjölmiðlum landsins í byrjun nóvember.

Nýverið greindi embætti ríkisskattstjóra frá því að listinn með nöfnum þeirra 200 einstaklinga sem eru með yfir 100 þúsund evrur, 13,8 milljónir króna, í tekjur yrði ekki sendur til fjölmiðla. Ákvörðunin er nú til skoðunar hjá dómsmálaráðuneytinu.

Samkvæmt frétt AFP segja finnsk skattayfirvöld að 95% íbúa greiði skatta sína með glöðu geði gegn því að fá góða þjónustu af hálfu hins opinbera, svo sem mennta- og heilbrigðiskerfisins. 

Jouni Kemppainen, ritstjóri Maaseudun Tulevaisuus, er afar ósáttur við ákvörðun skattayfirvalda og segir hana spurningu um meginreglu lýðræðis og opins velferðarkerfis.

Eins segir prófessor í stjórnskipunarrétti, Olli Maenpaa, í viðtali við dagblaðið Kauppalehti að vafi leiki á um skýringar skattayfirvalda um að birtingin brjóti gegn nýjum persónuverndarlögum Evrópusambandsins.

Noora Kontro, sérfræðingur hjá ríkisskattstjóra, segir að 100 einstaklingar hafi óskað eftir því að upplýsingar um tekjur þeirra verði ekki sendar til fjölmiðla og af þeim hafi 70 umsóknir verið afgreiddar með samþykki. Í einhverjum tilvikum hafi skattayfirvöld óskað eftir frekari upplýsingum. Hún vildi ekki upplýsa um í samtali við Yle hvaða ástæður viðkomandi hafi gefið upp fyrir beiðninni annað en að ein þeirra væri sú að nafnbirting sem þessi geti aukið líkur á að viðkomandi verði fórnarlömb glæpa. Eins að birtingin geti verið óþægileg fyrir íbúa í litlum samfélögum. Hún bendir á að þrátt fyrir að nöfn þeirra birtist ekki í fjölmiðlum sé hægt að leita uppi nöfn þeirra á skattstofunni. 

Þeir tveir einstaklingar sem voru með hæstu tekjurnar í Finnlandi í fyrra eru stofnendur leikjafyrirtækisins Supercell, Ilkka Paananen og Mikko Kodisoja, en sá fyrrnefndi var með 109 milljónir evra (15 milljarða króna) í árstekjur og sá síðarnefndi 98 milljónir evra (13,6 milljarða króna). Paananen greiddi samkvæmt frétt Yle 40 milljónir evra í skatt í fyrra en hann skipaði einnig efsta sæti listans árið á undan.  

Af þeim 100 tekjuhæstu eru aðeins tíu konur og sú sem var tekjuhæst kvenna er Maria Severina, sem er í fimmta sæti listans. Hún var með 36 milljónir evra (fimm milljarða króna) í tekjur í fyrra en tekjurnar koma af sölu líftæknifyrirtækisins Hytest.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK