Stjórnendur flugfélagsins sem hefur vinnuheitið WAB hafa boðað til blaðamannafundar í Perlunni í fyrramálið. Á bakvið WAB, eða We Are Back, standa m.a. fyrrverandi starfsmenn hins fallna flugfélags WOW, með Svein Inga Steinþórsson, sem stýrði hagdeild WOW, í forsvari.
Draga átti til tíðinda hjá félaginu um miðjan síðasta mánuð en lítið sem ekkert hefur heyrst frá WAB, fyrr en nú. Samskiptafulltrúi WAB air gat ekkert sagt til um efni fundarins þegar blaðamaður mbl.is leitaði eftir því en fullyrti að draga mun til tíðinda hjá félaginu á morgun.
ViðskiptaMogginn hefur heimildir fyrir því að fjármögnun WAB gangi vel. Rætt var um að tekist hefði að tryggja 40 milljónir evra en það hefur ekki fengist staðfest hjá WAB. Kynning á flugi WAB hefur ekki verið tímasett en það gæti breyst eftir fundinn á morgun.
WAB hóf starfsemi í byrjun ágúst á nýrri skrifstofu á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði, þar sem Actavis hafði áður aðstöðu. Sveinn Ingi, forstjóri og stofnandi nýja flugfélagsins, sagði að að ekkert myndi stoppa félagið. „Ég er alveg grjótharður á þessu. Það er ekkert sem stoppar okkur þessa stundina“.
WAB hefur verið vinnuheiti félagsins líkt og fyrr segir en athygli vekur að tilkynningin sem send var á fjölmiðla í kvöld kemur frá veffanginu mach.is. Lénið var skráð á upplýsingatæknifyrirtækið Premis ehf 12. ágúst, skömmu eftir að WAB hóf störf í skrifstofuhúsnæði í Hafnarfirði.
Mach, eða útbreiðsluhraði hljóðbylgna í lofti, er þekkt hugtak úr flugheiminum og því gæti vel komið til greina að hið nýja flugfélag muni bera heitir Mach air. Það mun að öllum líkindum skýrast á morgun.
Fréttin hefur verið uppfærð