Flugfélagið Play hefur þegar gengið til samninga við Íslenska flugstéttarfélagið um gerð kjarasamninga við bæði flugmenn og flugliða, samkvæmt Maríu Margréti Jóhannsdóttur samskiptafulltrúa flugfélagsins. Hún segist lítið botna í athugasemd frá Alþýðusambandi Íslands sem send var út til fjölmiðla síðdegis í dag. „ASÍ þarf engar áhyggjur að hafa,“ segir María.
Íslenska flugstéttarfélagið hét áður Íslenska flugmannafélagið (ÍFF) og var stéttarfélag flugmanna sem störfuðu hjá WOW air. Flugfreyjur WOW air voru hins vegar í Flugfreyjufélagi Íslands (FFÍ).
María Margrét segir í samtali við blaðamann að í sumar hafi verið gerð lagabreyting hjá stéttarfélaginu sem hafði það í för með sér að það gæti náð til fleiri starfsstétta innan fluggeirans.
ASÍ sagði í yfirlýsingu sinni að það ætlaði að gera kröfu um að flugfélagið Play myndi ganga til kjarasamninga um kjör starfsmanna sinna áður en það hefði sig til flugs og sagðist treysta því „að hið nýja fyrirtæki ætli sér ekki að keppa á íslenskum flug- og ferðamarkaði á grundvelli félagslegra undirboða.“
Í athugasemd ASÍ sagði jafnframt að sambandið myndi „ekki láta það yfir íslenskt launafólk ganga að félagsleg undirboð og lögbrot fyrirtækja eins og Primera Air verði endurtekin eða látin átölulaus af stjórnvöldum.“
Drífa Snædal forseti ASÍ sagði, spurð um það hví ASÍ fyndi sig knúið til þess að koma þessum athugasemdum á framfæri til hins nýja flugfélags — sem hafði gefið það frá sér í dag að það hyggist vera með höfuðstöðvar sínar hér á landi og starfa samkvæmt íslenskum kjarasamningum — að það væri af fenginni reynslu.
„Við höfum í gegnum tíðina þurft að hafa afskipti af flugfélögum og það er kannski ágætt að hafa í huga baráttu fyrir starfsfólk Primera Air í því sambandi. Við höfum sérstaklega beint sjónum okkar að flugfélögum og hvernig þau eru í kaupum og kjörum starfsfólks. Við vitum það að það hafa verið yfirlýsingar í tengslum við stofnun þessa nýja flugfélags, á fyrri stigum, um að halda launakostnaði niðri með ýmsum ráðum. Þess vegna erum við að skoða þetta sérstaklega,“ segir Drífa í samtali við mbl.is og bætti við að ekki væri ljóst í hvaða kjarasamninga forsvarsmenn Play hefðu verið að vísa í.
„Okkur vitandi er ekki búið að gera kjarasamninga við þetta fyrirtæki, þannig að þau þurfa að skýra það,“ sagði Drífa.
Blaðamaður hafði samband við fulltrúa flugfélagsins í kjölfarið og fékk þær skýringar sem vísað er til hér í upphafi fréttarinnar. ASÍ þyrfti engar áhyggjur að hafa.