Að baki Play, nýstofnaðs lággjaldaflugfélags, stendur hópur fólks með víðtæka reynslu úr flugheiminum en margir starfsmenn Play hafa áður starfað hjá flugfélögum á borð við WOW air og Air Atlanta. Þá stendur til að ráða fjölda starfsmanna á næstu vikum bæði á skrifstofu félagsins og í áhafnir hjá félaginu. Forstjóri Play er Arnar Már Magnússon.
Flogið verður á Airbus A320-flugvélum sem leigðar verða til félagsins og taka um 200 farþega í sæti. Gert er ráð fyrir sex vélum í rekstri næsta sumar og að flotinn vaxi í tíu vélar innan þriggja ára. Fyrst um sinn verður flogið innan Evrópu en stefnt er að því að bæta við áfangastöðum í Norður-Ameríku á komandi vormánuðum.
Sala flugmiða hefst í nóvember auk þess sem þúsund flugmiðar verða gefnir á vef félagsins flyplay.com