Lágmarksaldur til að starfa sem flugfreyja eða -þjónn hjá flugfélaginu Play, sem kynnt var til sögunnar í morgun, er 18 ár. Þetta er nokkuð lægri aldur en tilgreindur hefur sem lágmarksaldur fyrir þetta starf hingað til hér landi, t.d. hefur Icelandair tilgreint í auglýsingum sínum að 22-23 ára sé lágmarksaldur til að eiga möguleika á ráðningu.
Á vefsíðu Play er auglýst eftir fjölda fólks til starfa. Þeirra á meðal eru flugliðar og tiltekið er í auglýsingunni að fyrsti hópurinn eigi að hefja störf desember. Fleiri muni svo bætast í hópinn á nýju ári.
Einnig eru í boði sumarstörf á tímabilinu maí til september árið 2020.
Á vefsíðunni segir að hæfniskröfurnar séu að hafa hreint sakavottorð, vera „hraustir og hressir á líkama og sál og fæddir eigi síðar en árið 2001. Eingöngu þeir sem standast heilsufars- og bakgrunnsskoðun koma til greina. Framúrskarandi enskukunnátta er skilyrði. Önnur tungumálakunnátta kemur sér einnig vel,“ segir á vefsíðu Play.